Kvikmyndagerðarkonan Helga Rakel Rafnsdóttir hugðist fara með vinum sínum í Sundlaug Vesturbæjar í dag, en fékk þau svör hjá sundlauginni að hún kæmist ekki í sund. Ástæðan var sú að sökum framkvæmda við sundlaugina kemst hún ekki í útiklefann þar sem framkvæmdirnar krefðust þess að verktakinn geymdi alls konar dót á ganginum við aukainnganginn.
Helga Rakel sem er með MND og í hjólastól vakti athygli á málinu í færslu sinni á Facebook, en ekkert aðgengi er fyrir hreyfihamlaða í laugina meðan á framkvæmdum stendur og hreinlega ekki gert ráð fyrir slíku.
„Ég elska Sundlaug Vesturbæjar og hef verið þar fastagestur frá átta ára aldri þangað til ég byrjaði að nota hjólastól. Ég hef sem sagt ekki farið í Vesturbæjarlaug í fjögur ár og þar af leiðandi ekki fengið þá andlegu og líkamlegu næringu sem ferðunum þangað fylgir. Ég fitnaði talsvert eftir að ég tók að veikjast og það ásamt óttanum við að detta stóð í vegi fyrir því að ég tæki af skarið. Þau eru óteljandi skiptin sem ég hef setið á Kaffi Vest og fylgst með fólki koma úr lauginni endurnært á sál og líkama, ég hef orðið sorgmædd en líka reynt að halda í jákvæðni og finna til þakklætis. Oft eru þessar tilfinningar allar í einni bendu og ég bara brosi og heilsa sundgestunum, reyni að hugsa ekki um þetta.“
Helga Rakel segir það hafa tekið hana tíma að safna hugrekki, að læra að þykja vænt um breyttan líkama og styrkjast nægilega mikið líkamlega og andlega til þess að leggja í fyrstu sundferðina.
„Og í dag var komið að því, ég er loksins tilbúin, og ekki bara það ég var spennt! Ég er búin að kaupa stærri sundbol og lakka á mér neglurnar. Er búin að sjá mig fyrir mér fljótandi um í pottinum, agalega hress á spjalli við manneskju og aðra… hver veit nema ég tæki sundsprett… ég get ekki beðið eftir að komast að því hvað ég get gert í vatninu! Í dag er dagurinn, fjögur ár af uppsafnaðri þrá og sorg og alls konar tilfinningum mun leysast upp í heita pottinum og umhverfast í hreina og tæra alsælu! Eða hvað?“
Helga Rakel segist hafa ákveðið að hafa vaðið fyrir neðan sig og þannig hringt í Sundlaug Vesturbæjar, einnig til að undirbúa starfsfólk fyrir komu hennar.
„Röddin sem svaraði var enskumælandi karlmannsrödd sem tjáði mér að ég kæmist ekki í útiklefann vegna þess að framkvæmdirnar krefðust þess að verktakinn geymdi alls konar dót á ganginum við aukainnganginn. Ég reyndi að vera hress og spurði hvort hann væri alveg viss, hvort að það væri ekki pláss fyrir mig til að skjóta mér framhjá, sagði honum að ég gæti staðið og labbað smá en svarið var nei. Ég spurði aftur: „Are you absolutely sure? Is there no other entrance or another possibility?” Svarið var aftur nei og ég gæti prófað aftur um mánaðamótin. Það er ekkert aðgengi fyrir hreyfihamlaða þangað til og ekki gert ráð fyrir neinu slíku. Ég gat varla klárað símtalið, þakkaði honum fyrir og skellti nánast á hann. Niðurlægingin og vonbrigðin heltust yfir mig og ég fór bara að gráta. Já ég veit, ég get farið í aðrar laugar. En ekki í dag. Fyrst þarf ég að safna mér saman, losna við kökkinn í hálsinum og ná í hugrekkið, velja laug, sjá allt ferlið fyrir mér…“
Helga Rakel segir að það muni verða í lagi með hana og hún eigi eftir að fara í sund og gera alls konar þó að þessi stund hafi orðið að einhverju allt öðru en hún sá fyrir sér. Segir hún ástæðu þess að hún vilji deila atvikinu með öðrum vera þá að alls ekki sé um að ræða einstakt tilvik.
„Yfirleitt er skortur á aðgengi fyrst og fremst tilkomin af hugsunarleysi, af fordómum, af leti. Á meðan verið er að bæta aðgengi er svo mikilvægt að hugsa út fyrir kassann…. Hvað getur starfsfólk gert? Hvað getur þú gert?
Ég veit þetta vegna þess að eins oft og ég hef þurft að hætta við eitthvað vegna skorts á aðgengi, þá hef ég líka oft fengið hjálp og hvatningu og við höfum fundið út úr hlutunum saman (ég er yfirleitt bara mjög áræðin og lausnamiðuð þegar ég er komin yfir fyrsta kvíðann). Skyldi vera aðgengi fyrir fatlaða í þessari nýju saunu sem er verið að byggja í Vesturbæjarlaug? SJÁUMST Í SUNDI !!!“
Tveimur tímum eftir að færslan var birt uppfærði Helga Rakel hana og sagði sundlaugarstýruna hafa hringt í sig.
„Saunurnar sem verið er að byggja verða með aðgengi fyrir hreyfihamlaða og einnig verður í boði sérstakur stóll sem þolir hita. Verið er að bæta aðgengi almennt að lauginni og stefnt er á að því verði lokið fyrir 20. september. Verið er að færa lyftuna þannig hægt verður að fara bæði í barna- og djúpu laugina. Þangað til ætla ég bara að hafa gaman og prófa ólíkar laugar á höfuðborgarsvæðinu. Aðalmálið er að skert aðgengi skerðir lífsgæði og skapar fötlunarstrit. Munum það og sjáumst í sundi!“
Með færslunni deilir Helga Rakel mynd af vinum sínum sem tóku ekki annað í mál en að hún gengi með þeim upp brattar tröppur til að komast í matarboð. Vinirnir hafi beðið með henni úti í garði á meðan hún komst yfir mest lamandi hluta kvíðans, sem umbreyttist svo í fögnuð og sigurtilfinningu þegar inn var komið.