Viktor Ólason, útgefandi og framkvæmdastjóri Iceland Review, hefur sent frá sér fréttatilkynningu í tilefni fréttar Heimildarinnar um útgáfuna. Heimildin vekur athygli á því að Viktor hafi birt kynningarmyndbönd, unnin með gervigreind, sem sýni brenglaða mynd af Íslandi. „Eitt myndbandið hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum en þar er Hafnarfjörður auglýstur með gervigreindarrödd sem líkir eftir David Attenborough, þul breskra náttúrulífsmynda. Teiknaður víkingur dansar að „fornum víkingasið“ við lútuleik en á skiltum í kring stendur „Vikarrfjóriður“ og „Hnkarrfjórrður“,“ segir í fréttinni.
Segir í frétt Heimildarinnar að myndböndin hafi vakið furðu netverja og vitnar þar til ummæla tónlistarmannsins Svavars Knúts á samfélagsmiðlinum Bluesky en Svavar segir: „Hvað í ChatGPT fjáranum var ég að horfa á?“
Jafnframt er vakin athygli á því Iceland Review, sem er elsti fjölmiðill landsins sem gefinn er út á ensku og hafi komið út á prenti síðan 1963, hafi hætt prentútgáfu í fyrra. Fjölmiðillinn er nú einungis í vefútgáfu. Fyrirsögn fréttar Heimildarinnar er: „Elsta blað Íslands á ensku skiptir úr prenti í gervigreind.“
Viktor segir í tilkynningu sinni að fagfólk skrifi áfram efni á vef útgáfunnar en hún nýti sér gervigreindina í markaðssetningu. Segir hann að þeir sem haldi því fram að rangt sé að prófa sig áfram með gervigreindartækni skipi sér í flokk þeirra sem haldi að internetið sé bóla. Í tilkynningunni segir meðal annars:
Hér að neðan er myndbandið um Hafnarfjörð sem Heimildin gerir að umfjöllunarefni.