Afar langri bið aðdáenda sjónvarpsþáttanna The Office lýkur í september þegar spin-off þáttaröðin, The Paper, byrjar í sýningum á sjónvarpsstöðinni Peacock.
Þáttaröðin fjallar um Toledo Truth Teller, staðbundið dagblað í Toledo í Ohio sem á í erfiðleikum og er að reyna að koma sér aftur á rétta braut með hjálp nýrra sjálfboðaliðafréttamanna. Frumsýning er áætluð 4. september á Peacock, sömu streymisþjónustu og hýsir bæði bresku og bandarísku útgáfurnar af The Office.
Í þáttunum fara Domhnall Gleeson, þekktastur fyrir að túlka Bill Weasley í Harry Potter myndunum, og Sabrina Impacciatore, sem lék Valentinu í The White Lotus, með aðalhlutverk.
Stikla The Paper byrjar á því að persóna Tim Key telur upp vörur úr pappír í réttri röð: „Klósettpappír, klósettsetuhlífar og staðbundin dagblöð og það er í gæðaröð.“
Esmeralda (Impacciatore), sýnir grein sem hún skrifaði sem hún er „sérstaklega stolt af“, og myndavélin sýnir frétt sem ber titilinn „Þú munt ekki trúa því hversu mikið þjórfé Ben Affleck gaf limúsínubílstjóranum sínum“.
Ned (Gleeson) tilkynnir fréttastofunni að hann sé nýi ritstjórinn þeirra. „Hefurðu lesið þetta blað?“ spyr persóna Chelsea Frei Ned og hann játar. „Hvernig finnst þér það samanborið við önnur blöð?“ Án þess að hika svarar hann: „Það er ömurlegt, en við ætlum að gera það betra.“
Seinna, á starfsmannafundi, spyr Ned hvort einhver hafi reynslu af því að skrifa fyrir blað. Viðbrögðin eru líti, einn segir hafa tvítað og annar að hann hafi skrifað ritgerð í skóla og sé í hópskilaboðum. Þrátt fyrir það er Ned enn bjartsýnn á það sem starfsmenn hans muni geta áorkað.
Gleeson segir í samtali við People að aðalpersóna hans sé gríðarlega ólík því sem aðdáendur bresku og bandarísku útgáfunnar af The Office þekkja.
„Ég held ekki að persónan mín sé eins og Michael Scott yfir höfuð. Ef þú ert að reyna að keppa við það sem Steve [Carell] gerði eða það sem Ricky Gervais gerði, þá held ég að það væru gríðarleg mistök. Þeir eru snillingar sem eru ótrúlegir á marga mismunandi vegu.Við bjuggum til alveg nýja persónu. Og það er alveg ný tegund af uppsetningu, en ég vona að fólk finni ástæðu til að elska hann líka, bara á annan hátt en það gerði við strákana áður.“
Margir úr upprunalegu leikurunum í The Office hafa svarað aðspurðir að þeir munu ekki koma fram í nýju þáttaröðinni, þar á meðal Carell og John Krasinski, þó báðir hafi sagt að þeir bíði spenntir eftir að horfa og hafi gefið nýja leikhópnum góð ráð.