Víðtæk eftirför lögreglu og sérsveitar í fjallahéruðum í vesturhluta Montana hefur staðið yfir síðan á föstudag eftir að maður hóf skothríð á bar í smábænum Anaconda.
AP greinir frá þessu og nafngreinir manninn, hann heitir Michael Paul Brown og er 45 ára gamall. Hann er sagður hafa flúið vettvanginn á hvítum pallbíl eftir að hann framdi ódæðið.
Talsmaður lögreglu hvetur íbúa í Anaconda til að halda kyrru fyrir á heimilum sínum þar til byssumaðurinn hefur verið handtekinn. Hann er sagður vopnaður og hættulegur.
Michael Paul Brown er fyrrverandi hermaður og því fær í notkun skotvopna. Sem fyrr segir er hann álitinn mjög hættulegur en talsmaður lögreglu segir að ekkert bendi til að hann hafi unnið einhverjum fleirum mein en brotaþolum á barnum.
Tæplega tíu þúsund manns búa í Anaconda og segir viðmælandi AP að Brown hafi þekkt alla sem voru inni á barnum. Hann skaut barþjón og þrjá viðskiptavini. Viðmælandinn segir að Brown hafi ekki átt í neinum deilum neinn hinna látnu. Hann hafi líklega einfaldega misst stjórn á sér.
Frænka byssumannsins segir að Brown stríði við geðræn veikindi. „Þetta er veikur maður sem stundum veit ekki hver hann er og veit oft ekki hvar hann er staddur, né hvenær,“ segir hún.
Ekki er að sjá að lögreglu hafi enn tekist að hafa hendur í hári byssumannsins samkvæmt fréttum erlendra bandarískra fjölmiðla um málið.