Norður-Kórea hefur skorað á Bandaríkin að sætta sig við orðinn hlut. Kjarnorkuvopn landsins séu komin til að vera. Þetta kom fram í ríkismiðlinum í vikunni. Bandaríkin og Norður-Kórea hafa undanfarið átt í viðræðum um afkjarnavopnun síðarnefnda landsins.
Talsmaður Norður-Kóreu í utanríkismálum er Kim Yo Jong sem er systir einræðisherrans Kim Jon Un. Hún segir að hvorki diplómatík né stirt samband bróður hennar og forseta Bandaríkjanna muni verða til þess að Norður-Kórea afsali sér kjarnorkuvopnum sínum. Norður Kórea sé kjarnorkuveldi og verði það áfram.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lagt áherslu á afkjarnorkuvopnun einveldisins, bæði á fyrra kjörtímabili sem og nú. Slíkar viðræður hafa þó iðulega siglt í strand og hefur Norður-Kórea þvert á móti hraðað kjarnorkuvæðingu vopnaforða síns með vísan til vaxandi ógnar frá óvinaríkjum á borð við Suður-Kóreu og Bandaríkjunum. Kim Yo Jong segir það engum í hag að eiga í átökum út af þessum nýja og að hennar mati varanlega raunveruleika. Þvert á móti ættu Bandaríkin og Norður-Kórea að finna nýjan flöt til að koma á betri samskiptum ríkjanna.