DV greindi frá því í gær að fastagestur á sumarhúsasvæðinu á Flúðum, maður á sjötugsaldri, hafi látið þar öllum illum látum og verið handtekinn. Atvikin áttu sér stað á svæðinu á fimmtudag og aðfaranótt föstudags. Maðurinn er með hjólhýsi þarna og samkvæmt sjónarvottum munu atvikin hafa átt sér stað vegna ágreinings mannsins um lengd milli hýsanna á svæðinu. Samkvæmt reglum eiga að vera 5 – 6 metrar á milli, en maðurinn vildi meina við lögregluna að aðeins væru 2 metrar milli hans hýsis og annars.
Samkvæmt heimildum DV mun maðurinn hafa komið ölvaður akandi á bíl sínum á svæðið á föstudagsnótt og gengið berserksgang.
Katrín Júlía Arnarsdóttir og fjölskylda hennar eru fólkið sem manninum var uppsigað við vegna nálægðar við hjólhýsi þeirra. Hún lýsir atvikum í samtali við DV:
„Ég, fjölskylda mín og tengdafjölskylda komum saman og ætluðum að vera með fleira fjölskyldufólki sem er við hliðina á þesusm manni. Við komum á Flúðir um kl. 14 þann 17. júlí. Tjaldstæðisvörðurinn samþykkir sem sagt staðsetninguna hjá okkur en við vorum með eitt hjólhýsi og eitt fellihýsi. Hjólhýsið var fimm metrum frá hjólhýsi þessa manns.“
Maðurinn hafði brugðið sér frá og kom til baka og þá fór allt í háaloft.
„Samkvæmt honum vorum við of nálægt. Hann byrjar strax með kjaft og leiðindi og brunar síðan burtu á pallbílnum sínum til að tala við vörðinn. Þegar hann kemur til baka þá sit ég með tveggja ára barni mínu og tengdamömmu. Maðurinn minn stendur fyrir framan borðið. Þá kemur þessi maður á þvílíkum hraða á pallbílnum, ég myndi halda á milli 60 og 80 km/klst. og keyrir næstum á okkur. Maðurinn minn hoppar frá en hann eltir hann og bremsar rétt hjá honum. Maðurinn minn varð mjög reiður, rífur í hann og les yfir honum, að hann skuli ekki gera svona aftur og sérstaklega ekki þar sem eru börn.“
Katrín segir að þau hafi hringt í lögregluna sem sagði þeim að maðurinn kæmi ekki þarna aftur en ef hann kæmi ætti að hringja strax í neyðarlínuna.
„Við vöknum svo kl. 4:20 um nóttina við að hann er að blasta tónlist og að kíkja inn í fortjöldin hjá okkur og tengdaforeldrum okkar. Við hjónin vorum skíthrædd um líf okkar og hreinlega þorðum ekki út.“