Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra vísar á bug sögum um að heimsókn forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sé liður í einhvers konar baktjaldamakki til að lauma Íslandi inn í Evrópusambandið. Stórar ákvarðanir á borð við aðild séu ekki teknar nema með aðkomu þings og þjóðar. Þetta kemur fram í færslu Þorgerðar á Facebook þar sem segir:
„Stórar ákvarðanir eru ekki teknar nema með aðkomu þings og þjóðar. Það er einmitt þannig sem við vinnum – í gegnsæi og samtali. Þess vegna var gott samtal um samstarfssamninginn við utanríkismálanefnd Alþingis í vor. Það stenst engan veginn þegar sumir tala eins og verið sé að taka ákvarðanir bakdyramegin.
Það sama á við um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna en slík tillaga mun fyrst fara í gegnum Alþingi. Við eigum ekki að vera feimin við að leyfa þjóðinni að ráða í þessu máli. Og hún á rétt á að fá það tækifæri. Ég treysti íslensku þjóðinni til að taka upplýsta og skynsama ákvörðun. Ég vona að aðrir þingmenn geri það sama þótt vísbendingar um annað séu því miður komnar fram í formi hræðsluáróðurs og falsfrétta.“
Heimsókn Urslulu von der Leyen hafi staðfest vináttu og samstarf milli Íslands og Evrópusambandsins, enda ESB langmikilvægasti markaðurinn fyrir íslenskar vörur og þjónustu og auk þess náinn samstarfsaðili á nær öllum sviðum samfélagsins. Ákveðið hefur verið að hefja vinnu við gerð samstarfssamnings um öryggis- og varnarmál, en ESB hefur þegar gert slíka samninga við Bretland, Noreg, Kanada, Japan og fjögur önnur ríki. Aukið samstarf milli líkt þenkjandi ríkja sé mikilvægt á tímum sem þessum. Þessi samningur muni auk þess tryggja aðgang Íslands að svokölluðu SAFE-verkefni sem leggur um 150 milljarða evra á ári í fjárfestingar í öryggis- og varnarmálum sem gæti reynst Íslendingum dýrmætt í nýsköpun og iðnaði.
Eins var ákveðið að fara ítarlega yfir viðskiptakjör við Evrópusambandið, líkt og Ísland hafi sóst eftir um árabil. Markmiðið sé að bæta enn frekar markaðsaðgang fyrir íslenskar afurðir á grunni EES-samningsins.
„Við þurfum ekki að hræðast Evrópusambandið, þar sem við finnum fyrir okkar nánustu vinaþjóðir. Höfum sjálfstraust og þor til að ræða hvernig sambandi okkar við ESB er best farið, opinskátt og á grunni staðreynda. Mín sýn er skýr: íslensk þjóð, atvinnulíf og samfélag hefur allt að bera til að vera sjálfstæður og virkur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi – á sínum eigin forsendum.“
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði heimsókn von der Leyen pólitíska yfirlýsingu, sérstaklega að því hafi verið lýst yfir að aðildarumsókn Íslands væri enn gild um áratug eftir að hún var „formlega“ dregin til baka. Um væri að ræða stór og skipulögð skref í átt að aðild. Rétt er að geta þess að það kom fram strax í janúar að umsókn Íslands væri enn virk enda hafi hún aldrei verið formlega afturkölluð. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að utanríkisstefna eigi að byggja meðal annars á virðingu fyrir alþjóðalögum og náinni samvinnu við Evrópusambandið og að farið yrði í þjóðaratkvæðisgreiðslu um framhald aðildarviðræðna um aðild Íslands og Evrópusambandsins eigi síðar en árið 2027. Eins var tekið fram að óháðum erlendum sérfræðingum yrði falið að vinna skýrslu um kosti og galla krónunnar og valkosti Íslands í gjaldmiðlamálum. Því gætu margir velt fyrir sér hvers vegna heimsókn Ursulu vo der Leyen eða samvinna við Evrópusambandið sé að koma fólki á óvart í dag, eða hvaða pólitíska yfirlýsing eigi að felast í heimsókninni sem hafi ekki þegar komið fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.