Kristján Atli Sævarsson, 31 árs gamall göngugarpur frá Sólheimum, gekk nýlega Vestfjarðahringinn. Gangan var farin til að safna áheitum fyrir nýjum leirbrennsluofni á Sólheimum.
Kristján Atli kláraði gönguna skömmu eftir klukkan 13:00 þann 2. júlí eftir tveggja vikna göngu. Nýr leirbrennsluofn kostar um 3,8 milljónir króna og stefndi Kristján Atli á þá upphæð, en safnaði gott betur en það eða 5,2 milljónum króna.
Kristján Atli er með viðurnefnið Doppumeistarinn þar sem þekkt höfundarverk hans er rjúpustytta sem kallast Doppa. Og nú ætlar Kristján Atli að minnast göngunnar með því að gera eina uglu fyrir hvern kílómeter sem hann gekk.
„Jæja mínu kæru doppu-unnendur og gönguaðdáendur, hér er ég með rosalega stóra tilkynningu fyrir ykkur:
Eins og flestir ykkar vita fór ég gangandi eða réttara sagt hlaupandi allan vestfjarðarhringinn til að safna peningum fyrir nýjum brennsluofni fyrir leirgerð Sólheima.
Ég fór 570,57 km og því hef ég tekið eina stærstu vinnuákvörðun sem ég hef nokkurn tímann tekið.
Ég hef tekið þá ákvörðun að gera eina uglu fyrir hvern km sem ég fór eða samtals: 570 uglur.
Hver og ein uglan verður númeruð fyrir hvern km frá 1 til 570.“
Kristján Atli gerði einnig 95 uglur, eina fyrir hvert starfsár Sólheima sem fögnuðu 95 ára afmæli í júlí.
„Afmælisuglurnar eru handmótaðar af ást, kærleika og seiglu rétt eins og Sólheimar.
Uglurnar eru merktar því starfsári sem þær eru tileinkaðar.
Afmælisuglurnar eru komnar í sölu og fást eingöngu í versluninni Völu hér á Sólheimum á 5.900 krónur stykkið.“