Þann 11. júlí síðastliðinn var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Norðurlands eystra yfir manni sem var ákærður fyrir nauðgun. Samkvæmt ákæru var hann sakaður um að hafa að morgni sunnudagsins 4. febrúar 2024 beitt konu ofbeldi í sumarhúsi í kjölfar afmælisveislu hennar. Var hann sagður hafa haldið konunni fastri, klætt hana úr pilsi og nærbuxum, haldið fyrir munn hennar, tekið hana hálstaki og nauðgað henni í leggöng og endaþarm. Hlaut konan mar og húðblæðingar á hálsi og baki og afrifur í leggangaopi og endaþarmi.
Sem fyrr segir átti atvikið sér stað í kjölfar þess að konan hafði haldið upp á afmæli sitt í sumarbústaðnum að kvöldi laugardagsins 4. febrúar. Fjórir vinir hennar voru í veislunni en atvikið átti sér stað um nóttina. Konan leitaði til neyðarmóttöku sjúkrahúss um hádegi 4. febrúar. Var það mat heilbrigðisstarfsfólks sem skoðaði konuna að hún hafi borið andleg og líkamleg merki um ofbeldi.
Einnig segir í dómnum: „Brotaþoli leitaði einnig á neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis á bráðamóttöku Landspítala mánudaginn 5. febrúar. Þar var saga hennar tekin niður að nýju og kom meðal annars fram að við skoðun á […] hafi hún ekki verið viss um að vilja ræða við lögreglu um málið. Þar segir að hún sé flöt að sjá en myndi augnsamband og svari spurningum greiðlega. Hún sé með sjáanlega áverka á hálsi og baki. Hún viti ekki hvernig áverkar á baki hafi komið en segi áverka á hálsi annað hvort vera eftir að hann gaf henni sogblett eða eftir hálstak.“
Konan gaf síðan skýrslu á lögreglustöð í Reykjavík og ákærði var handtekinn í kjölfarið á heimili sínu.
Hinn ákærði sagðist hafa haft samræði við konuna að vilja hennar. Dómari mat að bæði ákærði og brotaþoli hafi í meginatriðum verið samkvæm sjálfum sér í frásögn sinni af atvikum. Síðan segir: „Ekki er ástæða til að efast um frásögn brotaþola af því að vilji hennar hafi í raun ekki staðið til þess að hafa þessi kynmök við ákærða og fær það stoð í gögnum um áverka og áhrifum á andlega líðan hennar. Sakfelling verður þó ekki byggð á því einu þar sem ásetningur er skilyrði refsiábyrgðar samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 18. gr. sömu laga. Við mat á því hvort sannað sé að ákærði hafi haft ásetning til nauðgunar verður að leggja til grundvallar hvernig atvik horfðu við honum á verknaðarstundu. Verður honum því ekki refsað fyrir nauðgun ef hann hafði réttmæta ástæðu til að ætla að brotaþoli væri samþykk kynmökunum.“
Í dómsniðurstöðu segir að ákærði sé „ekkert sérstaklega stór og mikill að burðum“ þó að hann sé stærri en brotaþoli. Verði því ekki talið að hann hafi haft líkamlega yfirburði yfir hana. Ennfremur er bent á að atvikið hafi átt sér stað skammt frá vinum fólksins sem voru vakandi og allsgáð. Fáist það illa staðist að ákærði hafi komið fram vilja sínum með líkamlegu ofbeldi við þessar aðstæður, þrátt fyrir að áverkar gefi til kynna ofbeldi. Í dómnum kemur fram að málsaðilar og aðrir sem voru í bústaðnum eru ung að árum en aldur þeirra er ekki gefinn upp.
Niðurstaðan er sú að maðurinn er sýknaður af ákæru um nauðgun og miskabótakröfu brotaþola upp á 4,5 milljónifr króna er vísað frá.
Dóminn má lesa hér.