Deila um kaup á fákinum Degi frá Kjarnholtum endaði fyrir dómstólum. Deilan var hatrömm og fór fram orðarimma á milli deiluaðila í hesthúsi. Var ræktandinn sakaður um dónaskap og krafinn um greiðslu fyrir þjálfun hestsins.
Stefnandinn er reiðkennari frá Háskólanum á Hólum sem fengist hefur verið þjálfun, tamningar og keppni frá unga aldri. Í dóminum segir að hún hafi komist í kynni við hestinn þegar hún kom að þjálfun hans fyrir þriðja aðila þegar hann var í húsi í Mosfellsbæ í ársbyrjun árið 2023, þá á sjöunda aldursári.
Lýsti hún vilja sínum til að kaupa hestinn af eiganda, sem er ræktandi í Biskupstungum, með það í huga að keppa á honum og var hann færður í hesthús hennar í Víðidal í Kópavogi í febrúar það ár. Komust þau að munnlegu samkomulagi um að kaupverð hestsins væri 2 milljónir króna en ágreiningur er um aðra þætti samkomulagsins, það er eftir að ræktandinn tók hestinn úr hesthúsinu í mars árið 2024, þá ógreiddan.
Krafði reiðkennarinn ræktandann um rúma eina milljón króna, það er vegna þjálfunar Dags í tíu og hálfan mánuð sem og kostnaðar vegna járningar. Gaf hún út reikning fyrir þessari upphæð en fékk kröfu upp á sömu tölu frá ræktandanum í staðinn fyrir leigu á hestinum í 16 mánuði.
Sagði reiðkennarinn að samkomulagið hefði falið í sér að hún myndi taka hestinn til sín, þjálfa hann með það í huga að gera hann að keppnishesti fyrir sig. Hann hafi verið ungur, nýgeltur og „hrár“. Gríðarlega vinnu hafi þurft að leggja í hestinn. Einnig hafi verið í samkomulaginu að ef hún myndi ekki ákveða að kaupa hestinn þá myndi hún skila honum án greiðslu fyrir vinnuna. Ef ræktandinn myndi hins vegar hætta við söluna yrði hann að greiða fyrir þjálfun.
Sagði hún að framan af hafi allt verið í góðu. Hafi hann spurt hvort hún ætlaði að kaupa hestinn og hún sagði játti því að hafa hug á því en hann væri í þróun.
En þann 9. mars árið 2024 hafi ræktandinn komið í hesthúsið ásamt konu sem er knapi til þess að skoða hestinn. Fóru þau inn á kaffistofu og sagði ræktandinn að það væri kominn kaupandi að hestinum sem kom reiðkennaranum mjög í opna skjöldu. En hafi kaupréttur verið virtur og hafi hann þá krafið hana um greiðslu fyrir hestinn. Sagðist reiðkennarinn geta gefið endanlegt svar daginn eftir.
Daginn eftir sagðist hún ætla að kaupa hestinn, að undangenginni söluskoðun hjá dýralækni. Tveim dögum síðar hafi hins vegar ræktandinn komið ásamt knapanum með múl og ætlað að sækja hestinn. Hafi hann verið „brjálaður“ og „dónalegur“ sem hafi olli því að reiðkennarinn hringdi í föður sinn sem kom á staðinn og gerði ræktandanum grein fyrir því að ef hann tæki hestinn yrði hann að greiða fyrir þjálfunina.
Eftir þessa orðarimmu fóru ræktandinn og knapinn úr hesthúsinu. Viku síðar var Dagur frá Kjarnholtum hins vegar horfinn úr hesthúsinu.
Ræktandinn sagði hins vegar aðra sögu. Það er að þau hefðu sammælst um að hesturinn yrði greiddur „rétt strax.“ Hann hafi gengið á eftir greiðslunni en reiðkennarinn þá sagt að henni vantaði fjármagn. Þá hafi tíminn liðið og reiðkennarinn ekki viljað sleppa hestinum heldur hafa hann hjá sér ógreiddan.
Hafi þetta endað með því að hann hafi tekið til sinna ráða og tekið hestinn til baka. Það er eftir nokkur símtöl og heimsóknir í hesthúsið.
Eftir orðarimmuna við föður reiðkennarans hafi hann sótt hestinn og selt knapanum helminginn í honum.
Ræktandinn var sýknaður í málinu en málskostnaður felldur niður. Í niðurstöðum dómsins sagði að það væri meginregla að munnlegur samningur jafngildir skriflegum samningi. En sá sem haldi því fram að munnlegur samningur hafi komist á beri þó sönnunarbyrðina fyrir því.
„Að öllu framangreindu virtu þykir stefnandi, gegn mótmælum stefnda, ekki hafa fært sönnur fyrir staðhæfingu sinni um að aðilar hafi samið svo um, eða það verið sameiginlegur skilningur aðila, að félli stefndi frá því að selja stefnanda hestinn bæri stefnda að greiða henni fyrir þjálfun á hestinum og annan kostnað vegna hans,“ segir í niðurstöðum dómsins.
Ekki sé hægt að líta svo á að sú vinna sem hún hafi unnið af hendi við þjálfun hestsins hafi verið að beiðni ræktandans. Standi orð gegn orði.