Embla Bachman og Kári Einarsson, Riddarar kærleikans, lögðu af stað í kærleikshringferð um landið laugardaginn 12. júlí. Í ferðinni heimsækja þau bæi víðs vegar um landið og hvetja þau bæjarbúa að taka þátt í kærleiksáskorunum í hverjum bæ en markmiðið er að skapa stóran kærleikshring hringinn í kringum landið. Kári og Embla eru fyrrum skólafélagar Bryndísar Klöru úr Verslunarskólanum og keyra þau um landið á sérmerktum bíl frá Öskju.
Markmiðið með hringferðinni er að vekja athygli á söfnunni fyrir Bryndísarhlíð og efla vitundarvakningu sem byggir á kærleika, samtali og samkennd. Kári og Embla verða á ferð um landið til 18. júlí og koma við fyrst við á Vík í Mýrdal, síðan er förinni heitið til Djúpavogs, Fáskrúðsfjarðar, Reyðarfjarðar, Egilsstaða, Akureyrar, Blönduóss, Ísafjarðar, Patreksfjarðar, Borgarnesa og síðan enda þau hringinn í Reykjavík,
Bryndísarhlíð verður fyrsta úrræði sinnar tegundar á Íslandi, þar sem börn fá lágþröskulda geðheilbrigðisþjónustu í öruggu og kærleiksríku umhverfi. Allt söfnunarfé rennur óskert í Minningarsjóð Bryndísar Klöru, sem stofnaður var í kjölfar hnífaárásar á Menningarnótt 2024, þar sem Bryndís Klara Birgisdóttir lét lífið.
Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, er verndari Minningarsjóðs Bryndísar Klöru og hafði frumkvæði að halda svokallaðan kærleikshring á Bessastöðum í kjölfar ákalls foreldra Bryndísar. Úr þeirri hugmynd spruttu Riddarar kærleikans, opin hreyfing fólks sem hefur það að markmiði að virkja kærleikann í samfélaginu, draga úr ofbeldi og bæta líðan með samtali og aðgerðum þvert á kynslóðir og hópa.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um kærleiksherferðina og kærleikshringferðina á @riddararkaeleikans á Instagram og Tik Tok og á vefsíðunni.