Stjórnsýslufræðingurinn Haukur Arnþórsson segir að meirihlutinn á þingi þurfi að horfast í augu við að eðlisbreyting hafi orðið á baráttunni á Alþingi. Hörð stjórnarandstaða hafi breyst í valdaránstilraun. Ríkisstjórnin þurfi að verja stjórnskipan landsins.
„Við erum stödd í miðri valdaránstilraun – rétt eins og slík tilraun getur gengið fyrir sig hér á landi,“ skrifar Haukur á Facebook um þá stöðu sem upp er komin á Alþingi. Landsmenn hafi undanfarið séð Alþingi leiðast inn í aðstæður þar sem minnihlutinn getur tekið völd af lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum. Leiðin þangað sé hálfnuð og enn hægt að snúa við. Að sama bragði sé hægt að ganga leiðina á enda og þar með hrekja ríkisstjórnina frá völdum.
„Ég held ekki að minnihlutinn sé að koma sér í valdaránsstöðu fyrir tilviljun. Ég held ekki heldur að fundarstöðvun Hildar Sverrisdóttur séu byrjendaafglöp. Eitt styður annað og Jens Garðar [Helgason] talar eins og brennuvargarnir við Biedermann og segir frá því hvað standi til. Það er ekkert leyndarmál á þeim bæ – þótt hægrið hafi tapað í lýðræðislegum kosningum þá er það komið til að taka völdin og koma í veg fyrir að réttkjörin stjórnvöld geti beitt sér.“
Ríkisstjórnin þurfi að taka valdið í sínar hendur, ef hún geri það ekki þá myndast tómarúm og það tómarúm geta valdaræningjar tekið yfir.
„Það er nákvæmlega að gerast,“ skrifar Haukur sem áður varaði við beitingu kjarnorkuákvæðis 71. gr. þingskaparlaga, en skipti síðar um skoðun. Nú þurfi að beita ákvæðinu til að sýna hver situr við völd.
„Atferli minnihlutans var þá augljóslega ekki lengur hörð stjórnarandstaða – hún var orðin inngangur að valdaráni.“
Valdarán geti falist í því að ríkisstjórn komi málum ekki í gegnum þingið því þannig verði ríkisstjórnin marklaus, ekkert nema fyrirætlanir og engar efndir. Þannig muni stjórnarliðar og stuðningsmenn missa trúna á ríkisstjórnina.
„Innbyrðis sundrung, tortryggni og svikabrigsl munu fella hana.“
Það séu hagsmunaverðir sjávarútvegsins sem séu að beita sér gegn ríkisstjórninni.
„Maður hefði haldið að þetta gerðist ekki hér. Allende þjóðnýtti námur sem var meira en auðvaldið í Síle þoldi, en hér er auðlindagjald á sjávarútveginn – meira en hagsmunaverðir hans þola. Og tökum eftir að það er ekki fjármálaauðvaldið, framleiðslu- eða verslunarauðvaldið eða ferðaþjónustan sem vill bola stjórnvöldum frá. Allir þeir aðilar virðast malandi kettlingar meðan hrammur sjávarútvegsins skekur stjórnskipan landsins.“
Haukur segir að meirihlutinn þurfi að horfast í augu við stöðuna og sýna hver fer með völdin í landinu, ríkisstjórnin eða minnihlutinn sem var hafnað í kosningunum.