fbpx
Þriðjudagur 08.júlí 2025
Fréttir

Segir orð Jens Garðars um ermi eftir gott kökupartý ekkert grín og lýsa vanþekkingu

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 8. júlí 2025 13:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólveig Sigurðardóttir, formaður Samtaka fólks með offitu (SFO), er ekki sátt með orð Jens Garðars Helgasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins um efnaskiptaaðgerðir. Segist Sólveig alveg skilja galsa og grín, en offita og efnaskiptaaðgerðir séu ekkert grín. 

Sólveig Sigurðardóttir

Jens Garðar lét orð sín falla á föstudag þegar hann mætti ásamt Þórarni Inga Péturssyni, þingmanni Framsóknarflokksins, í viðtal í Dagmál. Frétt um þáttinn birtist á Mbl á föstudag. Þar segir: 

„Skemmti­leg umræða spannst um mat­ar­menn­ingu á Alþingi í Dag­mál­um á dög­un­um. Gest­ir þátt­ar­ins, þing­menn­irn­ir Jens Garðar Helga­son og Þór­ar­inn Ingi Pét­urs­son, lýsa ástand­inu sem hálf­gerðu mat­arof­beldi. Eng­in leið sé til þess að sinna þyngd­ar­stjórn­un á þingi.“

Jens Garðar segist byrja daginn með háleit markmið um að standast freistingarnar. 

En hann Jens er með ráð und­ir rifi hverju og sér fram úr vand­ræðum sín­um með köku­átið.

„Er ekki best bara að fara ‘all-in’ og taka svo bara góða ermi eft­ir ára­mót.““

Hvað er magaermi?

Ermin sem Jens Garðar vísar til er ein efnaskiptaaðgerða, svokölluð magaermi. Á vef Klínikunnar í Ármúla segir um aðgerðina: Magaermi er orðin algengasta offituaðgerðin og hefur verið framkvæmd í yfir 10 ár. Árangurinn er heldur minni í samanburði við magahjáveituaðgerð en aðgerðin hefur samtímis vissa kosti.

Líkurnar á ákveðnum langtímafylgikvillum eru minni en við hefðbundna hjáveituaðgerð og má þar helst nefna hættuna á garnaflækju. Sjúklingar fá síður losun (dumping syndrome).

Við magaermi er 85-90% magans fjarlægður og eftir verður grannur magi, eins og banani í laginu og innan við 100 ml að rúmmáli. Ekki er gerð nein tenging eða hjáveita á smágirni. Hættan á næringarskorti er því minni en við hjáveituaðgerðir.

Þórarinn Ingi og Jens Garðar spjalla við Andreu Sigurðardóttur í Dagmál. Mynd: Skjáskot Mbl.is.

Hefur sjálf glímt við offitu frá barnæsku

Sólveig, er eins og áður sagði ekki sátt við orð Jens Garðars. Sjálf er hún með sjúkdóminn offitu, hefur farið í efnaskiptaaðgerð, og hefur í viðtölum greint frá baráttu sinni við offitu frá barnæsku, meðal annars í viðtali við Kveik árið 2021.  Hér má einnig lesa sögu Sólveigar. Sólveig var komin á fullorðinsár þegar hún fann hjálpina sem virkaði: marghliða aðstoð læknis, sálfræðings, sjúkraþjálfa og heilsuþjálfa hjá Heilsuborg. 

„Eins vel og ég skil góðan galsa og gleði. Og að það er komin þreyta í mannskapinn. Að þá er offita og efnaskiptaaðgerðir ekki grín. Ég hef sjálf farið í slíka aðgerð og má þakka fyrir að vera á lífi í dag. Þessar aðgerðir eru ekkert til að „skella sér í“ eftir gott kökupartý. Fræðumst og gerum betur. Sjúkdómurinn offita er vangreindur hér á landi. Meðferðir, þjónusta og skilningur ekki öllum aðgengilegt. Offita læknast ekki með aðgerð. Við þurfum vitundarvakningu! Og offita er ekki tabú.“

Sólveig ræddi málið við Síðdegisútvarp Rásar 2 í gær. 

„Þetta sló mig aðeins. Ég veit að þessir menn eru örugglega komnir með einhvern galsa. Þeir eru búnir að hanga allt of lengi á Alþingi og langar bara að komast í frí. En þetta var dálítið rætið grín vegna þess að offita er bara ekki djók. Vitneskjan um offituna sjálfa er svo lítil. Það er svo lítið í samfélaginu talað af alvöru um offitu. Ef að þetta er grín, að þá erum við bara á röngum stað.

Kannski skil ég það betur í dag að við séum ekki að fá betri þjónustu ef þetta er staðan niðri á Alþingi. Við erum alltaf að kalla eftir betra heilbrigðiskerfi og höfum bara verið virkilega að vinna með heilbrigðiskerfinu þannig að fólk fái greiningu, þjónustu og meðferðir, bara út lífið með krónískan sjúkdóm. Og ætlar svo að fá svona grín í andlitið og henda sér bara í einhverja aðgerð eftir að það er búið að fá sér kökur í einhverju boði. Þetta gengur ekki upp. Við þurfum að vita betur.“

Sólveig Sigurðardóttir

Fræðslu skortir og sjúkdómurinn læknist ekki með aðgerð eða lyfjum

Sólveig segir okkur ekki eiga orð yfir sjúkdóminn offitu. Það vanti meiri fræðslu um sjúkdóminn og hann læknist ekki einfaldlega með því að fara í aðgerð.

„Og ég myndi nú segja að ef þú værir með svona miklar áhyggjur af því að fá þér kökusneið og ætlar svo að skella þér út í einhverjar aðgerðir sem geta verið lífsógnandi aðgerðir. Þá þarftu nú aðeins meiri fræðslu vegna þess að efnaskiptaaðgerðir eru ekki grín og þær eru ekki léttvægar. Og þetta eru bara stór inngrip og stórar aðgerðir fyrir fólk sem er orðið mjög veikt af offitu.“

Sólveig segir sjúkdóminn margslunginn og margar ástæður geta verið fyrir honum, hann sé ekki klipptur burtu með aðgerð, tekinn í burtu með lyfjum eða með einhverjum lífsstílsbreytingum. Það séu ekki allir með offitu sem séu í stærri líkama, ekki sé hægt að horfa á einstakling og segja eftir útlitinu að hann þurfi í aðgerð eða sé með offitu.

„Þú hefur ekki hugmynd um það í dag hver er með sjúkdóminn vegna þess að bæði hafa aðgerðirnar hjálpað mikið og lyfin sem eru í boði í dag. Þannig að þú veist ekkert í dag hver er hvað og þetta er svo villandi. Og mjög margir sem hafa farið í aðgerðir eða eru að taka lyfin, þau vita ekkert einu sinni um sko hvað málið snýst og halda bara þegar að líkaminn léttist að þá sé sjúkdómurinn farinn.“

Ekkert eitt sem geti úrskýrt aukningu offitu

Sólveig bendir á að eftir aðgerð og/eða lyfjanotkun þá komi oft svokölluð sjúkdómspása í  2-5 ár, en sjúkdómurinn geti alltaf komið aftur, og geti komið aftan að fólki. Það þurfi því að vera til leiðir fyrir fólk til að leita sér aðstoðar, alveg sama á hvaða stigi sjúkdómurinn er. 

„Offita er oft mjög tengt líka áföllum. Og þú klippir það ekkert í burtu og fólk þarf að fá bara mismunandi hjálp. Það er ekki ein aðferð hægt, það er svo margt. Ég er alltaf að segja það sama: við þurfum miklu betri þjónustu inn á heilsugæslunni. Það er fyrsti staðurinn sem fólk á að leita sér hjálpar. Og þú átt að geta fengið viðeigandi þjónustu. Viðeigandi þjónusta er ekki að fara til læknis eða einhvern heilbrigðisstarfsmanns sem segir að þú þurfir bara að borða minna og hreyfa þig meira. Það segir ekki neitt, það getur verið skaðlegt.“

Sólveig segir lífsstíll okkar hafa breyst og ekki sé hægt að finna eitthvað eitt sem veldur því að sjúkdómurinn offita er orðinn algengari en áður. Bendir hún á að fólk sem glímir við sjúkdóminn lenti oft í að leita sér bráðaþjónustu í staðinn fyrir að fá greiningu og meðferðir og svo áframhaldandi þjónustu. 

„Og það er oft bara út lífið því að sjúkdómurinn offita er krónískur sjúkdómur. Og alveg sama hvaða aðförum er beitt við að halda honum í skefjum.“

Margir notast við þyngdarstjórnunarlyf og margir hafa farið í efnaskiptaaðgerðir, og aðspurð um hvort að það sé svona hættulegt að vera of þungur, svarar Sólveig að svo geti verið. Segist hún hafa misst vini sem voru veikir af offitu og fengu ekki viðeigandi þjónustu. 

„Já þú getur orðið mjög veikur af offitu. Offita er ekki útlit og offita er ekki BMI eða kíló, heldur er offita sjúkdómur sem getur verið á mörgum stigum í líkamanum. Við þurfum alltaf að geta leitað hjálpar, alveg sama í hvaða stærð við erum og hvernig hlutirnir eru. Og aðgerðir virka á suma og stundum virka þær bara ekki, og margir missa mörg kíló, sumir missa ekki neitt og þurfa jafnvel á lyfjameðferð að halda í framhaldinu. Eða fólk hefur farið á lyf og þau bara virka ekki neitt. Þannig að það er ekki eitthvað eitt sem hægt er að gera og við þurfum bara að koma upp miklu betri teymum innan heilbrigðiskerfisins þar sem fólk getur leitað til og við þurfum bara meiri vitneskju, hvort sem það er fyrir samfélagið sjálft eða heilbrigðiskerfið. Og ég veit alveg að það er ekki hægt að manna allar heilsugæslur með fólki sem er bara með mikla vitneskju um offitu. Það er bara ekki til hérna á landi, við eigum ekki bara nógu mikið af starfsfólki.“

Alltaf vongóð að hlutirnir breytist

Segir hún að skýrsla sem starfshópur vann að um þriggja ára skeið og Sólveig kom að ásamt fulltrúum frá heilsugæslunni, Reykjalundi, Landspítala, Landlæknisembættinu og heilbrigðisráðuneytinu, verði vonandi til að eitthvað breytist. Þó enn hafi það ekki gerst, en síðast var starfshópur settur á í maí í málaflokknum.

Margir sem eru í þyngri kantinum kannast við að fá þau svör frá læknum að allt sé það þyngdinni að kenna hvernig komið er. Sólveig segist kannast við það:

„Ég á alveg allar sögur. Ég hef komið með brotinn fingur þar sem hann nánast hékk á, og það var ekkert litið á fingurinn fyrr en það var aðeins búið að fara yfir þyrfti nú að gera betur og fingurinn skoðaður. Og ég hef mætt með hné sem var í maski, og hann horfði ekki á hnéð ekki fyrr en hann var búinn að fara yfir, alveg skanna mig alla út.“

Sólveig segist alltaf vongóð um að hlutirnir breytist og segir að þegar komi bakslag í umræðuna eins og grín Jens Garðars um efnaskiptaaðgerðir, að þá sé alltaf hægt að nýta bakslagið til fræðslu og uppvakningar.

„Þetta er nú ekki eins og þetta séu nokkrir og fáir einstaklingar á landinu eða í heiminum öllum. Því að offita er orðið bara mjög stórt vandamál fyrir heilbrigðiskerfið og við erum ekki vandamálið, fólkið sjálft, heldur er kerfið ekki að bregðast við því þegar fólk vantar þjónustu. Og það er alltaf verið að ýta aðeins á okkur að við séum að skemma kerfið og og við hlustum ekki og gerum ekki betur. En þetta er ekki við. Þetta er sem sagt orðið eins og núna bara í Evrópu, það er til dæmis orðið 60% af þjóðum orðin með offitu og ofþyngd, þá er orðið hlutfallið orðið ansi hátt.“

Fólk með offitu finni sífellt fyrir skömm

Sólveig segir ekki bara heilbrigðiskerfið þurfa að taka sig á , skólarnir þurfi einnig að gera það. Börn þurfi að fá góðan og og heilbrigðan og hollan mat og líka að hafa tíma til að borða hann, því streita sé eins og olía á eld fyrir fólk með sem er með offitu eða bara fyrir hvern sem er. 

„Ég er alltaf svo vongóð um að hlutirnir geti breyst. Ég held við þurfum bara öll að spá aðeins hvernig getum við farið fallega með hvort annað, ekki vera að henda út einhverri vitleysu vegna þess að það eyðileggur bara fyrir okkur.“

Segir hún skömm þeirra sem eru með offitu alls konar. „Fyrst var sagt að fólk væri að ræna lyfjunum af fólki með sykursýki og ætti bara að skammast sín fyrir að vera taka lyf af öðru veiku fólki. Og svo í dag er það þannig að fólk yfirleitt bara reynir að fela að það sé á einhverjum lyfjum eða jafnvel hefur farið í aðgerðir. Ég veit um fullt af fólki sem hefur farið erlendis í aðgerðir af því það þorir ekki að fara hérna heima. Það er hrætt um að fá á sig einhvers konar stimpil. Og líka það að fólk er að koma heim úr aðgerðum einhvers staðar erlendis sem það hefur farið í sjálft og lætur ekki heimilislækna eða heilbrigðiskerfi sitt sem það vinnur með vita og það er líka stórhættulegt.“

Segir Sólveig alla þurfa á þjónustu að halda sama hvaða stærð viðkomandi er í og hver BMI tala hans er. Slík þjónusta þurfi að fara fram með bæði vitneskju og kærleik.

Við þurfum fólk sem hefur meiri áhuga heldur en bara það að benda fólki á að þurfa að borða minna og hreyfa sig meira og það þarf að vita staðreyndir og rannsóknir.“

Viðtalið má hlusta á í heild sinni hér.

Upplýsingar um Samtök fólks með offitu og sjúkdóminn offitu má lesa á vefsíðu samtakanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Skýtur á menningu íslenskra samfélagsmiðlastjarna – „Athyglin er aðalgjaldmiðillinn og allt er notað í gróðaskyni“

Skýtur á menningu íslenskra samfélagsmiðlastjarna – „Athyglin er aðalgjaldmiðillinn og allt er notað í gróðaskyni“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Biðlar til ferðamanna að bæta umgengni – Sýnir myndir af ótrúlegum sóðaskap

Biðlar til ferðamanna að bæta umgengni – Sýnir myndir af ótrúlegum sóðaskap
Fréttir
Í gær

Landsréttur slær á putta héraðsdóms – Mál óprúttins vörubílstjóra sem keyrði á lögreglubifreið fer fyrir dóm

Landsréttur slær á putta héraðsdóms – Mál óprúttins vörubílstjóra sem keyrði á lögreglubifreið fer fyrir dóm
Fréttir
Í gær

Fastus vann stærsta sjúkrabílaútboð á Íslandi

Fastus vann stærsta sjúkrabílaútboð á Íslandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fékk þungan dóm fyrir að skjóta 3 vikna dóttur sína til bana með lásboga

Fékk þungan dóm fyrir að skjóta 3 vikna dóttur sína til bana með lásboga
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jónas Már segir kolröng skilaboð send til barna – „Ekki minnist ég að hafa séð svona skilti í minni æsku“

Jónas Már segir kolröng skilaboð send til barna – „Ekki minnist ég að hafa séð svona skilti í minni æsku“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslenskar konur komu hinni pólsku Aleksöndru á óvart – „Ég þekki konu sem á fimm börn með mismunandi mönnum og það angrar ekki neinn“

Íslenskar konur komu hinni pólsku Aleksöndru á óvart – „Ég þekki konu sem á fimm börn með mismunandi mönnum og það angrar ekki neinn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ný könnun sýnir djúpa gjá á milli vestur- og austurhluta Reykjavíkur – Sjálfstæðisflokkurinn höfðar ekki til ungra kjósenda

Ný könnun sýnir djúpa gjá á milli vestur- og austurhluta Reykjavíkur – Sjálfstæðisflokkurinn höfðar ekki til ungra kjósenda