Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
„Ég var sár, svekkt og leið,“ segir Alexandra Jóhannsdóttir landsliðskona um tilfinningar sínar eftir að Ísland féll úr leik á EM eftir 2-0 tap gegn Sviss í gær.
„Ég held að við megum bara vera smá svekktar og leiðar í dag. En svo þurfum við bara að setja okkur nýtt markmið og það er að vinna á fimmtudag,“ segir hún enn fremur, en þá mætir íslenska liðið því norska í leik sem nú hefur litla þýðingu.
Það var bæting á frammistöðu Íslands í gærkvöldi frá því í leiknum við Finna, sem einnig tapaðist, en það dugði ekki til.
„Við vorum að verjast vel, hefðum kannski getað gert aðeins betur með boltann en mér fannst góð stemning í liðinu,“ segir Alexandra.
„Þú getur rétt ímyndað þér hversu sárt þetta var og hvernig stemningin var inni í klefanum. Við settum okkur stórt markmið, að komast upp úr riðlinum.“
Nánar í spilaranum.