Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Það hefur mikil umræða skapast um framtíð Þorsteins Halldórsson, þjálfara íslenska kvennalandsliðsins, í kjölfar þess að Ísland datt úr leik strax í 2. umferð riðlakeppni EM í gær.
Þorsteinn hefur verið með liðið síðan í byrjun árs 2021 og farið með það á tvö stórmót. Í bæði skiptin hefur niðurstaðan verið sú sama, Stelpurnar okkar sátu eftir í riðlakeppninni.
Töluverðar væntingar voru gerðar til liðsins fyrir þetta mót, enda í viðráðanlegum riðli miðað við aðra á mótinu, með Noregi, Sviss og Finnum. Tap gegn síðastnefndu löndunum í fyrstu tveimur leikjunum þýðir hins vegar að þetta er búið.
Ekki er vitað hvort Þorsteinn verði áfram með íslenska liðið. Sjálfur segist hann ekki vera farinn að leiða hugann að framtíðinni, hann sé aðeins með hausinn á síðasta leik EM við Noreg á fimmtudag.
Hér er þó listi með fimm nöfnum sem gætu hugsanlega tekið við íslenska landsliðinu af Þorsteini ef hann verður ekki áfram með liðið.
Ólafur Kristjánsson
Nafnið sem margir virðast vilja fá inn. Hefur komið af krafti inn í kvennaknattspyrnuna sem þjálfari Þróttar og fjallar nú um EM kvenna á RÚV. Væri ekki ósennilega ofarlega á blaði ef skipt verður um þjálfara.
Davíð Snorri Jónasson
Er aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins, fyrrum þjálfari U-21 árs landsliðs karla og hefur starfað sem njósnari fyrir kvennalandsliðið í kringum EM. Er því þegar búinn að koma sér vel fyrir hjá KSÍ og er þar vel liðinn.
Nik Chamberlain
Virkilega skemmtilegur þjálfari sem hefur gert frábæra hluti í íslenska boltanum. Gerði frábæra hluti með Þrótt og mætti svo með Íslandsmeistaratitilinn í Kópaovginn á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari kvennaliðs Breiðabliks.
Pétur Pétursson
Reynslumikill og sigursæll þjálfari sem raðaði inn titlum með kvennalið Vals. Er á lausu eftir að hafa verið látinn fara frá Val síðasta haust.
Elísabet Gunnarsdóttir
Nafn sem marga dreymir um að sjá taka við íslenska landsliðinu einn daginn eftir frábæran árangur í félagsliðaboltanum. Líklega langsótt að fá hana á næstunni þó þar sem hún þjálfar í dag kvennalandslið Belga, sem eru á EM líkt og Ísland.