Púðluhundurinn Oddur, fjórfættur vinur Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, fyrrum alþingismanns, er talinn hafa farist með honum í sjóslysinu út af Patreksfirði þann 30. júní síðastliðinn. Þetta kemur fram í færslu vinkonu þeirra, Jósu Þorbjarnardóttur, sem minnist þeirra í færslu á Hundasamfélaginu.
„Margir muna eftir þeim af Geirsnefinu og elskuðu hundarnir mínir Magnús. Hann átti alltaf eitthvað gott í bílnum harðfisk eða nammi og varð ég alltaf hundlaus þegar mín sáu hann og þá kom Oddur til mín í knús og klapp,“ skrifar Jósa í færslunni sem hefur hlotið mikil viðbrögð.
Í athugasemdum er greint frá því að Oddur hafi verið um borð í bátnum, að öllum líkindum í appelsínugulu flotvesti, en eftirgrennslan eftir honum síðustu daga hafi ekki borið árangur. Hafa fjörur verið gengnar og leitað úr lofti með dróna til að mynda.