Erlendur ferðamaður sem var að fara frá Íslandi í gegnum Leifsstöð harmar skipulagið á flugvellinum. Hann segist hafa þurft að standa lengi í röð, án þess að geta sest eða fengið sér vatn og án upplýsinga um hvers vegna flugið tafðist.
„Ég elskaði landið (fegurðina, fólkið, jarðfræðina, söguna) og skemmti mér konunglega í ferðinni en reynslan af flugvellinum á leið frá landinu var ekki alveg eins og best verður á kosið,“ segir ferðamaðurinn í færslu á samfélagsmiðlinum Reddit.
Lenti hann í flugi sem tafðist og fékk hópurinn engar upplýsingar um hvað væri að gerast. Þess í stað mátti hann standa lengi í biðröð án þess að geta hvílt sig eða vætt kverkarnar.
„Við vorum föst á svæði sem var markað með reipi við hlið í meira en klukkutíma með engan stað til að setjast niður á, engan aðgang að klósetti, ekkert vatn og það sem skipti mestu máli, engar upplýsingar um af hverju flugið okkar tafðist eða hvenær við máttum eiga von á því að komast um borð,“ segir ferðamaðurinn. „Það var mikið af eldra fólki og börnum í hópnum sem áttu í basli með að vera í þessum aðstæðum. Var ég búinn að taka það fram að það var mjög heitt í þessari fjölmennu biðröð?“
Þegar fólkið gat loksins farið að ganga um borð í flugvélina spurði ferðamaðurinn starfsmann við hliðið hvers vegna þessi töf hefði orðið og fékk þau svör að flugvélin hefði komið seint til Íslands. Segir hann að þetta hefðu verið upplýsingar sem auðveldlega hefði verið hægt að miðla til fólksins í röðinni. Það hefði verið nægur tími til að fara á annan stað, hvíla sig, komast á klósettið og fá sér vatnsglas.
Segir hann að sökin liggi sennilega hjá báðum aðilum. Það er flugvellinum sjálfum fyrir að útvega ekki neitt almennilegt biðsvæði með sætum og flugfélagsins sem veiti ekki nægar upplýsingar til farþeganna.
„Kannski hefur vilji Íslands til þess að auka ferðamannastrauminn farið fram úr getunni til þess að taka á móti honum,“ segir ferðamaðurinn. Þrátt fyrir þessa leiðinlegu uppákomu mæli hann þó með því að fólk heimsæki Ísland.
Hefur færslan fengið mikil viðbrögð og sitt sýnist hverjum um reynsluna á Keflavíkurflugvelli.
„Ég elska Ísland. Ég hata flugvöllinn,“ segir einn af mikilli hreinskilni.
„Keflavíkurflugvöllur hefur stækkað mjög mikið á undanförnum 20 árum og þessu hafa augljóslega fylgt vaxtarverkir. En það er verið að reyna að laga þetta,“ segir annar.
Ekki allir eru sammála og lýsa allt annarri reynslu. Það er að það hafi verið mjög vel hugsað um farþega á leið úr landinu.
„Heimamaður hérna. Í hreinskilni sagt finnst mér Keflavíkurflugvöllur fá allt of mikla gagnrýni. Þetta er frábær lítill flugvöllur,“ segir einn Íslendingur.
„Ég hef aldrei þurft að standa innan reipis í meira en klukkutíma. Ég sit bara við barinn. Veit ekki hvað hefur eiginlega komið fyrir þennan ferðamann,“ segir annar.