Fiskiroð frá vestfirska fyrirtækinu Kerecsis var notað til þess að bjarga skallaerni í Bandaríkjunum. Örninn hafði lent í klaufalegu slysi og var í miklum vanda.
Miðillinn KARE-TV í Minneapolis greinir frá þessu.
„Hún flaug að tréi en hitti ekki greinina og féll til jarðar, þá var ljóst að eitthvað var ekki í lagi,“ sagði dýralæknirinn Kim Ammann sem fékk skallaössuna til aðhlynningar á Winged Freedom Raptor dýraspítalann í bænum Spooner í Wisconsin fylki. En starfsfólk spítalans sérhæfir sig í aðhlynningu arna, ugla og fálka. Umrædd assa er kölluð Kere.
„Ég fann blóð og sár á fætinum hennar og þetta leit ekkert svakalega illa út í byrjun,“ sagði Ammann. „En þegar ég byrjaði að sinna þessu áttaði ég mig á því að þetta var mjög stórt vandamál. Ég hugsaði um að svæfa hana.“
Ammann þurfti að fá húð til að græða á fótinn en hún var ekki til. Þá fór hún í rannsóknir og las um fiskiroðið frá Kerecsis. Roðið hefur aðallega verið notað til þess að hjálpa fólki en einnig hefur það verið notað á hross, hunda, skjaldbökur og núna skallaörn.
Kere hefur nú náð sér að fullu og verið sleppt aftur út í náttúruna.
„Það svolítið sorglegt og tilfinningaþrungið að horfa á hana og vita að þetta verður sennilega í síðasta skiptið sem við sjáum hana,“ sagði Ammann þegar Kere var sleppt.