Sindri Sindrason, fjölmiðlamaður á Sýn, undrast framkomu yfirvalda útlendingamála í garð Oscars, 17 ára drengs frá Kólumbíu, en hann er fósturbarn hjónanna Svavars Jóhannsonar og Sonju Magnúsdóttir, sem eiga auk hans fimm börn.
Nýlega birtist úrskurður kærunefndar útlendingamála þess efnis að Oscar skuli fluttur úr landi og sendur til Kólumbíu í hendur barnaverndaryfirvalda þar, sem líklega munu senda hann á munaðarleysingjahæli. Áður hafði Barnavernd Suðurnesja skilað því áliti að best sé að Oscar verði hjá þeim Svavari og Sonju, þar sem hann býr við gott atlæti.
Þau Svavar og Sonja ræddu málið á Bylgjunni í morgun.
Ekki á að taka umsókn Oscars til efnislegrar meðferðar heldur verður honum vísað aftur til Kólumbíu í byrjun júní, en þar á hann engan að. Oscar kom hingað með föður sínum er hann var 14 ára og var föðurnum neitað um efnislega meðferð á umsókn um landvistarleyfi. Yfirvöld túlka það þannig að Oscar hafi fengið höfnun á efnislegri umfjöllun og sú ákvörðun stendur.
„Okkur líður náttúrulega bara ömurlega. Við fengum þessar fréttir – Síðasta vika var dálítið svart og hvítt, við fengum fyrst fréttir frá barnavernd suðurnesja um að þeir leggðu til að Oscar fengi vernD og töldu engan veginn óhætt að senda hann til Kólumbíu aftur. Við héldum að sú ákvörðun myndi trompa allar ákvarðanir en neinei, kærunefnd útlendingamála virti þessa ákvörðurn barnaverndar algjörlega að vettugi og sagði bara jújú við ætlum samt að senda hann út. Og nú er komin lokaákvörðun og lokaúrskurður kærunefndar útlendingamála og það á sem sagt að senda Oscar einan út í hendur á barnaverndaryfirvöldum í Kólumbíu og senda hann þar á einhvers konar barnaverndar- eða munaðarleysingjaheimili, því hann er strangt til tekið munaðarlaus, frekar en að lofa honum að vera hjá okkur,“ sagði Svavar.
Sonja benti á að bæði foreldrar Oscars væru í felum einhvers staðar í Kólumbíu og faðirinn hefði beitt Oscar ofbeldi. Svavar sótti þá Oscar til Kólumbíu og flutti hann hingað til lands. Svavar segist gruna að einhverjir embættismenn séu fúilir yfir því að Oscar sé kominn hingað aftur og ætli ekki að gefa sig varðandi hans mál. Eins og það sé þeirra persónulega tap að hann hafi komið hingað aftur og sé aftur orðinn vandamál fyrir Útlendingastofnun.
Hjónin benda á að Barnavernd Suðurnesja hafi unnið sitt mál vel, hafi verið í sambandi við barnaverndaryfirvöld í Kólumbíu og tekið Osar í könnunarviðtal. Þeirra niðurstaða var ótvíræð, að Oscari sé ekki óhætt í Kólumbíu og best sé að hann fái að vera hjá Svavari og Sonju. Þau benda á að þetta sé ekki útlendingamál heldur barnaverndarmál og þarna sé verið að brjóta barnaverndarsáttmála Sameinuðu þjóðannal. „Hér er bara drengur undir aldri sem okkur ber að vernda samkvæmt öllum sáttmálum sem við erum búin að skrifa undir sem þjóð. Og við erum ekki að gera það,“ sagði Svavar.
Hjónin hafa reynt að fá áheyrn ráðherra en án árangurs:
„Þetta er „computer says no.“ Dómsmálaráðherra, barnamálaráðherra, Inga sæland velferðráðherra, enginn hefur svarað okkur enginn skiptir sér af, svörin eru þau að það séu þar til gerðar stofnanir sem sjá um þessi mál og þau ætli ekki að skipta sér af þessu.“
Svavar og Sonja ætla núna að kæra ákvörðun kærunefndar útlendingamála til héraðsdóms og hafa sótt um að flutningi Oscars frá landinu verði frestað þar til niðurstaða í því máli liggur fyrir.
Sindri benti á að hann þekkti vel til málefna fósturbarna, hann hafi sjálfur fengið að ættleiða og hafi gert þáttaseríurnar fósturbörn.
„Ég held að flestir skilji það að það er ekki hægt að hleypa öllum inn til landsins og við verðum að vinsa úr og velja vel. Það er bara þannig. En þegar barn er hér á landi, 17 ára barn, þarf á hjálp að halda og það eru foreldrar sem eru tilbúnir að elska barnið og koma því til manns þá er það ekki ves.“
Sindri sagði að ef sumir ráðherrar væru í stjórnarandstöðu myndi heyrast annað hljóð í þeim um málið:
„Ef þetta er allt rétt sagt frá þá er þetta bara skrýtið. Ef ég er að heyra þetta allt rétt eins og þið eruð að segja frá þá er þetta bara skrýtið. Og ég ætla að leyfa mér að fullyrða það að ef ákveðnir stjórnarliðar væru í stórnarandstöðu þá væru menn rasandi. En af því menn eru við stjórnvölinn þá er þetta svona neeei málið er að við verðum að fara eftir lögum og reglum og kerfið og blebleble. Nú er ekki hægt að gera undantekningu.“
Mótmælafundur til stuðnings Oscari verður haldinn á Austurvelli kl. 15 í dag.