fbpx
Sunnudagur 25.maí 2025
Fréttir

Erfið barátta Ástþrúðar við kerfið eftir alvarlegt slys – Aðrir hirða mikið af lágum bótunum – „Er bara afgangsstærð í íslensku þjóðfélagi“

Jakob Snævar Ólafsson
Sunnudaginn 25. maí 2025 10:30

Ástþrúður Kristín Jónsdóttir stundaði lengi hestamennsku af kappi. Alvarlegt slys í útreiðatúr árið 2021 og annað slys tveimur árum síður gerðu hins vegar út um möguleika hennar á að fara aftur á bak hesti. Eftir fyrrnefnda slysið og með gjörbreyttum fjárhagslegum veruleika tók hins vegar við erfið barátta við íslenska kerfið. Mynd/Aðsend.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ástþrúður Kristín Jónsdóttir segir farir sínar ekki sléttar eftir samskipti sín við tryggingafélagið Vörð, lækni, lögmann og íslenska ríkið eftir alvarlegt slys sem hún lenti í fyrir fjórum árum. Ástþrúður slasaðist illa í slysinu, hefur glímt við mikla verki æ síðan, á erfitt með svefn og er óvinnufær. Hún var tryggð hjá Verði en það var fyrst nýlega sem að niðurstaða barst frá félaginu í kjölfar mats læknis um að hún ætti að fá upphæð í bætur sem teljast verður nokkuð lág miðað við alvarleika slyssins. Ástþrúður segir hins vegar að læknirinn sem gerði matið, lögmaður hennar og Vörður, með hækkun iðgjalda, muni í raun hirða megnið af bótunum. Hún gerir þar að auki alvarlegar athugasemdir við mat læknisins. Ástþrúður hefur raunar lent í fleiri slysum en þessu og ofan á allt saman hefur hún þurft að glíma við skerðingar íslenska ríkisins á örorkulífeyrisgreiðslum til hennar. Hún segir kerfið á Íslandi byggt þannig upp að fólk í hennar stöðu eigi sér vart viðreisnar von og hefur hug á að flytja allt það fé sem hún þó enn á úr landi.

Slysið alvarlega

Árið 2021 var Ástþrúður í útreiðatúr með vinkonum sínum í nágrenni Hvaleyrarvatns. Mættu vinkonurnar fólki á fjallahjólum sem var á mikilli ferð. Hestur Ástþrúðar fældist með þeim affleiðingum að hún féll af baki og lenti á bíl sem hafði verið lagt í vegkantinum. Ástþrúður ræddi slysið í viðtali við Morgunblaðið og sagði þá að hún hefði strax fundið fyrir mjög miklum verkjum í baki sem hafi leitt út í hand- og fótleggi.

Eftir að komið var með Ástþrúði á spítala var niðurstaðan sú að auk innvortis blæðinga væru sex hryggjarliðir brotnir þar af væri eitt brotið óstöðugt. Ástþrúður segir í samtali við DV að henni hafi verið tjáð að litlu hefði mátt muna að hún hefði lamast.

Mynd sem var tekin þegar Ástþrúður lá á spítalanum. Mynd/Aðsend.

Ástþrúður var sérstaklega ósátt við að vera látin bíða í tvo daga, mjög kvalin og alvarlega slösuð, eftir að komast í aðgerð.

Þegar slysið varð hafði Ástþrúður verið að glíma við veikindi í lungum vegna myglu í húsi sem hún hafði fest kaup á og því tekjur hennar verið skertar.

Í dag fjórum árum síðar er Ástþrúður enn að glíma við mikla verki og svefntruflanir og til að bæta gráu ofan á svart hefur hún þurft að glíma við fjárhagslegar afleiðingar slyssins.

Nýr veruleiki

Áður en Ástþrúður veiktist og lenti í kjölfarið í slysinu alvarlega 2021 og fleiri slysum eftir það, sem nánar verður vikið að síðar, hafði hún alltaf unnið fyrir sér og verið oft með góðar tekjur. Þegar ógæfan dundi yfir hafði hún áður verið meðal annars í stjórnendastöðu hjá snyrtivöruframleiðandanum L‘Oreal. Það var því algjörlega ný reynsla fyrir hana að geta ekki unnið.

Nokkrum vikum eftir slysið fjallaði Ástþrúður um stöðu sína í grein í fjölmiðlinum Kjarnanum. Í greininni lýsti Ástþrúður með ítarlegum hætti þeirri heilbrigðisþjónustu sem henni var boðið upp á í kjölfar slyssins og þá meðal annars óbærilegri biðinni eftir að komast í aðgerð. Ástþrúður fjallaði einnig um þann fjárhagslega veruleika sem hún stóð frammi fyrir eftir þetta alvarlega slys. Átti hún að fá samtals frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóði sínum, eftir skerðingar, um 220.000 krónur á mánuði.

Ástþrúður lamaðist eins og áður segir ekki í slysinu en hefur verið óvinnufær síðan. Í annarri grein í Kjarnanum nokkrum mánuðum eftir slysið fjallaði hún um þær miklu skerðingar sem lagðar voru á hana eins og svo margra aðra örorkulífeyrisþega. Einnig lýsti hún því hvernig starfsmenn Tryggingastofnunar hafi viljað vita allt um hennar hagi en þekking þeirra sjálfra á örorkulífeyriskerfinu hafi verið bágborin.

Mynd sem sýnir langan skurðinn á baki Ástþrúðar eftir slysið alvarlega 2021. Mynd/Aðsend.

Vörður og matið

Ekki tók mikið betra við þegar kom að því að eiga við tryggingafélagið Vörð en þegar slysið varð 2021 var Ástþrúður með slysatryggingu í frítíma hjá félaginu. Nýlega, fjórum árum eftir slysið, barst henni sú niðurstaða Varðar að hún ætti að fá 2,3 milljónir króna í bætur sem Ástþrúður telur ansi lágt í ljósi þess hversu alvarlegar afleiðingar slysið hefur haft fyrir hana en eins og áður segir glímir hún við mikla verki, tilheyrandi svefntruflanir, þurfti að fara í umfangsmikla endurhæfingu og reglulega í sjúkraþjálfun síðan þá. Afleiðingarnar eru að Ástþrúður er óvinnufær og því tekjutapið mikið til frambúðar.

Vörður byggir upphæðina á mati læknis en Ástþrúður gerir alvarlegar athugasemdir við matið. Umræddur læknir hefur starfað víða hér á landi með endurhæfingu sem sérsvið meðal annars á Landspítalanum og Reykjalundi. Í mati læknisins kom fram að Ástþrúður gæti mögulega þurft á sjúkraþjálfun að halda.

Í samtalinu við DV segir Ástþrúður að það standist ekki skoðun. Hún hafi enda farið í umfangsmikla endurhæfingu og fari enn reglulega í sjúkraþjálfun og hafi eytt í það töluverðum upphæðum. Ástþrúður segist hafa raunar greint lækninum frá því að hún verði að fara þrisvar í viku í sjúkraþjálfun þegar hún er stödd á landinu, til að einfaldlega gera líf hennar bærilegra, en hún dvelur hluta ársins á Spáni þar sem hærra hitastig þar í landi dregur úr verkjunum. Í ljósi alls þessa furðar Ástþrúður sig á því að læknirinn hafi skrifað í matið að hún gæti hugsanlega þurft á sjúkraþjálfun að halda.

Göngugrind sem Ástþrúður þurfti að nota á spítalanum eftir slysið 2021. Á henni er rarfmagnspumpa sem hún varð að nota til að geta híft sjálfa sig upp úr rúminu. Mynd/Aðsend.

Sömuleiðis furðar Ástþrúður sig á því að læknirinn hafi skrifað í matið að hún þyrfti ekki á lyfjameðferð að halda, í ljósi þess að hún hefur haft mikla verki allt frá slysinu fyrir fjórum árum. Hún ætlar þó eftir fremsta megni að forðast að taka inn verkjalyf.

Slysum blandað saman

Ástþrúður gerir einnig athugasemdir við þá staðreynd að við mat læknisins hafi einnig verið horft til bílslyss og annars hestaslyss sem hún varð fyrir, eftir slysið 2021, en í seinna hestaslysinu, sem varð árið 2023, hlaut hún einnig brot í hryggjarlið. Hún telur að eðlilegra hefði verið að gera eitt mat fyrir hvert slys enda hafi hún tilkynnt um þau í hvert sinn en í staðinn hafi þeim verið blandað saman í einu mati sem gert hafi verið um fjórum árum eftir fyrsta slysið.

Ástþrúður dregur ekki dul á það í samtalinu við DV að hún er afar ósátt við mat læknisins. Að sögn Ástþrúðar stóð viðtal hennar við lækninn í tvo klukkutíma en á meðan því stóð hafi furðu skammur tími farið í að ræða slysin sem hún hafði lent í og afleiðingar þeirra. Hún segir að horft hafi verið til veikindanna sem hún hafði glímt við fyrir slysið 2021 til að færa rök fyrir því að slysið eitt og sér hafi haft minni áhrif á heilsu hennar en ætla mætti og lækka þar með örorkumatið vegna slyssins.

Tuttugu prósent

Örorka Ástþrúðar eftir slysið 2021 var metin 20 prósent en 8 prósent eftir seinna hestaslysið og fjögur prósent eftir bílslysið. Erfitt virðist að sjá hvernig komist er að slíkri niðurstöðu þegar þrjú mismunandi slys eru tekin fyrir í einu og sama matinu. Velta má því fyrir sér hvernig þessi skipting er fengin þegar um einn og sama líkamann er að ræða og nokkuð ljóst virðist vera að mögulegt er að slys geti haft áhrif á eldri meiðsli og áverka.

Fyrir slysið 2021, sem var alvarlegast af þeim slysum sem hún hefur lent í, fékk Ástþrúður greiddar bætur miðað við þess 20 prósent örorku. Á tryggingarskírteini hennar kemur fram að örorkubætur í slysatryggingu frítíma, miðað við 100 prósent örorku, ættu að vera 37.982.000 krónur. Þá liggur beinast við að álykta að miðað við 20 prósent örorku ættu bæturnar að vera 7.596.400 krónur en ekki 2,3 milljónir eins og raunin varð.

Ástþrúður segist hafa haft samband við Vörð undir því yfirskini að hún væri að leita tilboða í tryggingar og spurt hvort að 20 prósent örorka myndi þýða að hún fengi greitt 20 prósent af upphæðinni, fyrir 100 prósent örorku, sem kveðið væri á um í slysatryggingu frítíma. Sölufulltrúi Varðar hafi ekki getað svarað því.

Ástþrúður segist í kjölfarið hafa haft samband við starfsmann annars tryggingafélags. Þá hafi hún fengið þau svör að fari örorka yfir 20 prósent hafi það margföldunaráhrif á útgreiðslu bóta. Hún segir ekki annað hægt en að velta niðurstöðunni, um að hún hafi verið metin með einmitt 20 prósent örorku, fyrir sér í þessu ljósi. Sami starfsmaður hafi sagt það fátítt að fólk væri metið með 100 prósent örorku.

Hún segir það ljóst að þrátt fyrir að hafa borgað háar upphæðir í tryggingar hafi verið lítið hald í þeim þegar á hafi þurft að halda:

„Þá er ég bara minna virði en matsmennirnir.“

Misjafnt

Ástþrúður á bágt með að skilja af hverju eftir allt þetta ferli að niðurstaðan hafi verið þetta lágar bætur miðað við alvarleika slyssins 2021.

Þar að auki fékk hún um 860.000 krónur í bætur fyrir síðara hestaslysið, 2023, en eins og áður segir brotnuðu sex hryggjarliðir, auk þess sem að Ástþrúður hlaut innvortis blæðingar í slysinu 2021, en einn hryggjarliður í slysinu 2023.

Hún er að hugleiða hvort hún fari í dómsmál vegna niðurstöðu Varðar þegar kemur að slysinu 2021 en bendir á að verði af því muni það þýða töluverðan kostnað fyrir hana.

Nýlega voru annarri konu dæmdar um 6 milljónir króna í bætur eftir að VÍS neitaði að greiða þær út eftir að hún hlaut varanlegt líkamstjón í kjölfar aftanákeyrslu en miðað við lýsingar á slysinu og áverkum þeirrar konu virðist óhætt að telja slysið sem Ástþrúður lenti í 2021 og afleiðingar þess enn alvarlegri.

Kvalin af verkjum í þrjú ár en VÍS gaf sig ekki og neitaði að borga

Þótt með þessum orðum sé alls ekki verið að draga úr því sem hin konan varð fyrir er vart annað hægt en að bera saman þessi tvö tilfelli og hversu misjöfn útkoman hefur verið. Í þessu samhengi má einnig velta fyrir sér auglýsingum frá lögmannsstofum þar sem nefndar eru nokkuð hærri upphæðir sem einstaklingar hafa fengið en þá sem Ástþrúður fékk. Í einni auglýsingu er til að mynda því lýst yfir að einstaklingur sem slasast hafi á hálsi og baki í umferðarslysi hafi fengið 11 milljónir. Þó er sérstaklega tekið þar fram að upphæð slysabóta geti verið misjöfn eftir aldri. Í fljótu bragði finnast þó ekki ákvæði um slíkt í skilmálum slysatrygginga flestra helstu tryggingafélaga landsins en það skal þó ekki fullyrt að þau séu ekki til staðar.

Skilmálar VÍS kveða þó um að tryggingarfjárhæð slysatryggingar byrji að skerðast við 70 ára aldur en sá skilmáli á þó eftir að taka gildi.

Ástþrúður í útreiðatúr áður en ógæfan dundi yfir. Mynd/Aðsend.

Lögmaðurinn

Hins vegar er málið ekki svo einfalt að þessi upphæð bótanna frá Verði renni óskipt beint til Ástþrúðar. Lögmaður hennar tekur um 610.000 krónur en Ástþrúður segir að auk fyrir fram umsamins 10 prósent hlutfalls af upphæð bótanna hafi lögmaðurinn lagt á aukagjald fyrir að fara yfir reikningana frá Verði. Aukagjaldið hafi verið 90.000 krónur fyrir hvert slys, hestaslysin tvö og bílslysið sem Ástþrúður lenti í. Hún furðar sig á því í ljósi þess að hún gekkst einungis undir eitt læknismat fyrir öll slysin.

Hún segist hafa talið að lögmaðurinn hafi verið að semja við Vörð um upphæð bótanna en hann hafi í raun bara verið að bíða eftir niðurstöðunni. Það sem lögmaðurinn hafi aðallega gert hafi verið að fara yfir niðurstöðu Varðar og spurt hana spurninga sem hann hafi getað fengið svör við með því að kynna sér mat læknisins. Í raun hafi ekki verið um annað en dýran ritara að ræða.

Eftir hennar reynslu segist Ástþrúður skilja betur hvers vegna lögmannsstofur auglýsi svo grimmt þjónustu sína vegna slysabóta. Í hennar máli hafi verið mikið upp úr því að hafa fyrir litla vinnu og hún sjái eftir sína reynslu ekki mikla þörf fyrir aðkomu lögfræðinga að slíkum málum.

Ástþrúður segir að lögfræðingur Öryrkjabandalagsins hafi tekið undir með henni um að vinnubrögð lögmannsins hafi alls ekki verið í lagi og hvatt hana til að kvarta við Lögmannafélag Íslands sem hún hafi gert.

Tvöföldun Varðar

Ástþrúður segir að þar að auki hafi Vörður í kjölfar slyssins tvöfaldað iðgjöld hennar og eftir þetta allt saman sé að verða lítið eftir af þessum 2,3 milljónum sem hún fékk fyrir slysið 2021, auk bótanna fyrir slysið 2023. Hún hafi í raun þegar greitt Verði vel upp í bæturnar sem hún fékk, í tilfelli fyrra slyssins, eftir fjögurra ára bið.

Hún segir að þar að auki fái læknirinn sitt fyrir matið og það stefni í að hann og lögmaðurinn fái meira í sinn hlut en það sem hún fær. Samkvæmt núgildandi skilmálum slysatrygginga Varðar er félaginu heimilt að láta trúnaðarlækni félagsins skoða tjónþola og það greiðir kostnað við öflun allra læknisvottorða sé þeirra aflað að beiðni félagsins en ekki er getið nánar um upphæðir í þessu ákvæði.

Ástþrúður segist hafa hugleitt að reyna að drýgja það sem eftir stendur af slysabótunum með kaupum á hlutabréfum í Íslandsbanka en komist að þeirri niðurstöðu að allur mögulegur ágóði myndi hvort eð er renna til Tryggingastofnunar vegna skerðinga á lífeyrinum hennar.

Skerðingarnar hamla sölu á hesthúsinu sem hún getur ekki notað lengur

Ástþrúður fer ekkert í grafgötur með að hún telur allt kerfið sem tekur við fólki hér á landi sem lendir í jafn alvarlegu slysi og hún sé þessum hópi ekkert sérstaklega hliðhollt:

„Þá er bara einhvern veginn búið að gefa út algjört veiðileyfi á þá sem að eins og ég lenda í mjög slæmu slysi. Það er bara kippt fótunum undan manni á öllum vígstöðvum.“

Ástþrúður segir að viðtökurnar í kerfinu hafi í raun falið í sér meira áfall en sjálft stóra slysið, 2021. Skerðingar bæði hjá lífeyrissjóðnum og Tryggingastofnun hafi reynst henni erfiðar við að framfleyta sér og ein birtingarmynd þess sé að henni sé gert nánast ómögulegt að selja hesthúsið sitt, vegna fyrirséðra skerðinga á lífeyri hennar sem það myndi valda, en eftir tvö hestaslys er ljóst að Ástþrúður mun ekki fara á hestbak framar. Ástþrúður segist hafa lagt bæði fé og vinnu, ásamt syni sínum, í að gera hesthúsið upp og ætli sér ekki að láta Tryggingastofnun hirða afraksturinn af sölunni.

Ljóst er að tekjur af sölunni myndu koma sér mjög vel fyrir Ástþrúði en hún segir að þar sem lífeyrir hennar myndi skerðast svo mikið sé í raun hagstæðara að hún eigi hesthúsið til æviloka og þegar börn hennar erfi það verði erfðafjárskatturinn minni en skerðingin á lífeyrinum hefði orðið.

Verkir og lífið

Ástþrúður glímir við verkina alla daga. Hún segist geta gert all flest sem fylgir daglegu lífi en aðeins í skamman tíma í senn. Sérstaklega erfitt reynist henni að gera eitthvað sem felur í sér að sveigja þarf bakið á einhvern hátt, til dæmis við að klippa táneglurnar:

„Það er rosaleg lífskjaraskerðing.“

Hún vaknar iðulega á nóttunni vegna verkjanna og fer þá að ganga um gólf.

Ástþrúður getur ekki farið framar á hestbak vegna slysanna og því ómögulegt að svona mynd verði tekin af henni aftur. Mynd/Aðsend.

Ljóst er því að lífsgæði Ástþrúðar eru verulega skert og hún stendur frammi fyrir því að vera óvinnufær til frambúðar. Hún er langt frá því sátt við þá meðferð sem mál hennar hefur fengið hjá öllum aðilum sem hafa komið að því og veltir fyrir sér að ef lög og reglur séu virkilega svona hvort það sé þá ekki eitthvað bogið við það:

„Ég er bara afgangsstærð í íslensku þjóðfélagi og kem alltaf til með að vera.“

Tilkynnti ekki fjórða slysið

Svo brennd er Ástþrúður af reynslu sinni að hún ákvað að sleppa því að tilkynna um fjórða slysið sem hún lenti í fyrir um einum og hálfum mánuði en þá datt hún í stiga og lenti á bakinu. Verkirnir snarversnuðu og hún fór á sjúkrahús en sér ekki tilganginn í því að fara með þetta slys eins og hin í gegnum allt tryggingaferlið sem hér hefur verið rakið. Hún hefur ekki mikla löngum til að ganga í gegnum þetta allt aftur og segir það einfaldlega ekki borga sig að tilkynna slysið:

„Ég fæ ekkert út úr því.“

„Mér er bara refsað fyrir að tilkynna það.“

Ástþrúður segir það ljóst að öryrkjar séu ekki jafn mikils virði og annað fólk á Íslandi nema þegar komi að því borga fyrir tryggingar og skatta og skerðingar. Hún er staðráðin í að flytja allt það fé sem hún á eftir frá Íslandi og til Spánar:

„Ég ætla ekki að eiga eina helvítis krónu þar.“

Lifa lífinu

Þrátt fyrir allt sem hefur gengið á er Ástþrúður staðráðin í að hætta ekki að lifa lífinu og ætlar ekki að láta þetta allt brjóta sig niður. Hún heldur í gleðina og segir ekki annað hægt en að hlæja að öllu því sem hún hefur upplifað í kerfinu síðan 2021 því annars taki ekkert annað en svartnætti hugans við. Það er aftur á móti hennar upplifun að þjóðfélagið líti svo á að öryrkjar eigi að vera þunglyndir uppi í rúmi allan liðlangan daginn. Hún er hins vegar harðákveðin í að fara ekki eftir því og ætlar að lifa lífinu eins og og hægt er:

„Ég ætla að halda áfram að fá að vera til.“

Ástþrúður ætlar sér svo sannarlega að brosa og halda áfram að lifa lífinu þrátt fyrir allt sem hún hefur þurft að þola. Mynd/Aðsend

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Vilja nota veiðigjaldið til að bjarga menningarverðmætum

Vilja nota veiðigjaldið til að bjarga menningarverðmætum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Varar Íslendinga við Trump

Varar Íslendinga við Trump
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hefur matvælaverð þrefaldast út af Viðskiptaráði Íslands? – Hagfræðingur tætir í sig svarta skýrslu um svarta sauði

Hefur matvælaverð þrefaldast út af Viðskiptaráði Íslands? – Hagfræðingur tætir í sig svarta skýrslu um svarta sauði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn Már hættir hjá Samherja – Sonur hans tekur við

Þorsteinn Már hættir hjá Samherja – Sonur hans tekur við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fá ekki að hafa svalalokanir eins og nágrannarnir

Fá ekki að hafa svalalokanir eins og nágrannarnir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sala á Perlunni samþykkt – Greidd með 13 árlegum afborgunum og óljós ákvæði um mögulega frekari greiðslur

Sala á Perlunni samþykkt – Greidd með 13 árlegum afborgunum og óljós ákvæði um mögulega frekari greiðslur