Manchester United hefur engan áhuga á að selja Bruno Fernandes, fyrirliða sinn, á næstunni.
Þetta segir stjóri liðsins, Ruben Amorim, en portúgalski miðjumaðurinn hefur verið töluvert orðaður við Al-Hilal í Sádi-Arabíu undanfarið.
Sádarnir eru stórhuga fyrir sumarið og eru sagðir til í að bjóða Fernandes um 33 milljarða króna fyrir þriggja ára samning.
Það er hins vegar ekki talið að Fernandes vilji fara frá United á næstu misserum og ýta ummæli Amorim undir það.
„Það er eðlilegt að mörg félög vilji leikmenn eins og Bruno. En við viljum halda okkar bestu mönnum og Bruno er einn sá besti í heimi. Við viljum halda honum hjá okkur,“ sagði hann.
United tekur á móti Athletic Bilbao í seinni leik liðanna í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld. Enska liðið er í ansi góðri stöðu eftir 0-3 sigur í fyrri leiknum.