Það var mikið um dýrðir í Laugardalnum á föstudag þegar Þróttur tók á móti Leikni í 1. umferð Lengjudeildar karla. Einhverjir furðuðu sig þó á verðlaginu á vellinum.
Tómas Þór Þórðarson kom inn á þetta í útvarpsþættinum Fótbolti.net á laugardag. Hrósaði hann umgjörð Þróttara í kringum leikinn, sem lauk með 1-1 jafntefli, en verðin hafi hins vegar verið of há. Bjór hafi til að mynda kostað 1500 krónur.
„1500 kall er helvíti vel í lagt. Gunnar Jarl Jónsson, Þróttari mikill, var trylltur yfir verðlaginu. Hlauppoki og gosdós á 1500 krónur, nú þurfa Þróttarar að fara að slappa af,“ sagði Tómas.
Elvar Geir Magnússon skaut þá inn í að eingöngu miði á leikinn hafi kostað 3 þúsund krónur.
„Þetta er út í hött. Þetta er Lengjudeildin,“ sagði Tómas þá.