
Valur valdi Patrick Pedersen íþróttamann Vals árið 2025 nú um áramótin. Patrick vann það afrek á árinu að slá markamet í efstu deild á Íslandi og er nú kominn með 134 mörk. Hann sló fyrra met Tryggva Guðmundssonar sem var 131 mark. Með því varð Patrick markahæsti leikmaður Íslandsmótsins frá upphafi. Af 7 efstu markaskorurum efstu deildar á Íslandi á Valur nú þrjá: Patrick Pedersen í efsta sæti, Inga Björn Albertsson í þriðja sæti með 126 mörk og Hermann Gunnarsson í sjöunda sæti með 95 mörk.
Patrick kom fyrst til Vals fyrir 12 árum og hefur reynst félaginu góður og mikilvægur liðsmaður allan tímann sem hann hefur leikið með félaginu. Árið 2025 skoraði hann 18 mörk og var markahæstur í efstu deild þó svo hann hafi orðið fyrir því óláni að meiðast alvarlega og missa af átta síðustu umferðunum. Leikmenn efstu deildar völdu hann leikmann ársins sem verður að teljast frábært í ljósi þess hve mikið hann missti úr í lok móts. Í bikarúrslitaleik þann 20. ágúst slitnaði hásin sem varð til þess að Patrick fór í aðgerð sem gekk vel. Bataferli hans er samkvæmt áætlun. Vonir standa til þess að hann komi heill og kröftugur til baka og leiki með liðinu á komandi vori.
Þetta er í 34. sinn sem Valur velur Íþróttamann ársins hjá félaginu. Halldór Einarsson, formaður Fulltrúaráðs Vals, átti hugmyndina að valinu og gaf bikar.
Margir öflugir Valsarar og íþróttamenn hafa hlotið tilnefningu. Má þar nefna meðal annarra Valdimar Grímsson, Guðmund Hrafnkelsson markvörð, Dag Sigurðsson, Jón Kristjánsson, Ragnar Þór Jónsson, Sigurbjörn Hreiðarsson, Bjarna Ólaf Eiríksson, Margréti Láru Viðarsdóttur, Katrínu Jónsdóttur, Dóru Maríu Lárusdóttur, Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur, Hauk Pál Sigurðsson, Birki Má Sævarsson, Helenu Sverrisdóttur og Benedikt Gunnar Óskarsson. Marga fleiri glæsilega íþróttamenn Vals mætti nefna. Patrick Petersen er því sannarlega í góðum hópi.