

Fyrir kosningar boðuðu bæði Björt framtíð og Viðreisn að gera ætti kerfisbreytingar í landbúnaði og sjávarútvegi. Þær áherslur urðu enda meðal annars, þó af því fari misjöfnum sögum, til þess að upp úr slitnaði í fimm flokka viðræðunum sem miðuðu að því að mynda hér ríkisstjórn frá miðju til vinstri. Viðreisn og Björt framtíð hlupu í fangið á Sjálfstæðisflokknum og mynduðu ríkisstjórn. Þar virðist hins vegar sem flokkarnir tveir hafi sæst á að kasta fyrir róða flestum hugmyndum um kerfisbreytingarnar sem svo mikil áhersla var lögð á í fimm flokka viðræðunum. Í stjórnarsáttmála er þannig ekkert að finna um breytingar á búvörusamningum né um að fiskveiðikvóti verði settur á markað, líkt og flokkarnir tveir lögðu áherslu á. Nú hefur verið skipað í atvinnuveganefnd þingsins. Þar eru sjálfstæðisþingmenn Suðurkjördæmis, þeir Páll Magnússon og Ásmundur Friðriksson, formaður og varaformaður. Auk þeirra sitja meðal annars í nefndinni Óli Björn Kárason, Sigurður Ingi Jóhannsson og Lilja Rafney Magnúsdóttir. Ekki eru þessir einstaklingar, jafn ágætir og þeir eru, líklegir til að stokka upp í þessum tveimur atvinnugreinum. Viðreisnarfólk og Björt framtíð á vafalítið eftir að verða fyrir vonbrigðum.