

Wolverhampton Wanderers eru tilbúnir að selja norska framherjann Jørgen Strand Larsen fyrir um 40 milljónir punda, en áhugi á honum hefur aukist að undanförnu, sérstaklega frá Nottingham Forest.
Daily Mail greindi frá því rétt fyrir opnun félagaskiptagluggans að Strand Larsen væri á radar hjá Forest, Crystal Palace og West Ham United.
Fleiri félög á borð við Everton, Aston Villa og Tottenham Hotspur hafa einnig skoðað stöðuna á hinum 25 ára gamla Norðmanni, þó sum þeirra hafi haft efasemdir um frammistöðu hans.
Newcastle United sendi njósnara á leik Wolves og West Ham í síðustu viku, en Newcastle bauð 55 milljónir punda í Larsen síðasta sumar án árangurs. Félagið gæti aftur leitað að nýjum framherja ef Will Osula yfirgefur liðið.
Forest eru að leita sér að nýjum sóknarmanni eftir að markahæsti leikmaður liðsins á síðustu leiktíð, Chris Wood, gekkst undir hnéaðgerð. Þá er einnig ljóst að varnarmaður Wolves, Ki-Jana Hoever, mun ganga til liðs við Sheffield United á láni út tímabilið.