
Eddie Howe, stjóri Newcastle, útilokaði sjálfur að taka við Manchester United, er hann var spurður út í starfið.
Eins og flestir vita er stjórastaða United laus eftir að Ruben Amorim var rekinn í upphafi vikunnar.
Talið er að United ætli sér að ráða bráðabirgðastjóra út leiktíðina og svo mann til frambúðar í sumar. Howe var víða nefndur í því samhengi.
„Það hefur ekkert breyst mín megin. Minn hugur er allur hér og ég legg eins hart að mér og mögulegt er,“ sagði hann hins vegar.
Howe tók við Newcastle 2021 og hefur gert góða hluti, komið liðinu í Meistaradeildina tvisvar og þá vann liðið deildabikarinn undir hans stjórn á síðustu leiktíð.