
Ole Gunnar Solskjær og Michael Carrick berjast nú um að taka við sem bráðabirgðaþjálfari Manchester United út tímabilið.
Samkvæmt Daily Mail ræddu báðir við framkvæmdastjórann Omar Berrada og Jason Wilcox yfirmann knattspyrnumála á þriðjudag, en endanleg ákvörðun verður ekki tekin fyrr en þeir hafa hist augliti til auglitis. Darren Fletcher, sem stýrir liðinu tímabundið gegn Burnley á miðvikudag, á enn veika von um að fá starfið.

Solskjær er sagður orðinn helsti kandídatinn. Norðmaðurinn, sem er goðsögn hjá félaginu, tók tímabundið við liðinu árið 2018 og hélt starfinu í nærri þrjú ár. Hann hefur verið án starfs síðan hann var rekinn frá Besiktas í fyrra.
Carrick er einnig á lausu eftir að honum var sagt upp hjá Middlesbrough í júní. Þessi fyrrum miðjumaður United stýrði liðinu í þremur leikjum sem bráðabirgðaþjálfari eftir brottför Solskjær árið 2021 og nýtur trausts innan félagsins.
Sir Alex Ferguson sneri aftur á æfingasvæðið á þriðjudag og ræddi við stjórnendur félagsins, en bæði Solskjær og Carrick léku undir hans stjórn. Gert er ráð fyrir að ákvörðun liggi fyrir á næstu dögum.