

15 ára knattspyrnumaður lést á hörmulegan hátt eftir að hafa fallið ofan í brunn í Marokkó á gamlárskvöld.
Youssef Khachroub var í fríi með fjölskyldu sinni á Marrakech Golf City-svæðinu þegar slysið átti sér stað. Hann fór í kvöldhlaup, hluta af æfingarrútínu hans, en lenti þá í hópi hunda sem eltu hann. Samkvæmt föður hans hvarf Youssef um klukkan 19 og fannst nokkrum klukkustundum síðar látinn á botni um 50 metra djúps brunns.
Youssef, sem lék með FC Mougins nálægt Cannes, var mjög hræddur við hunda. Fjölskylda hans hefur lagt fram kæru á hendur þeim sem bera ábyrgð á íbúðar- og framkvæmdasvæðinu, þar sem að þeirra mati skorti viðvaranir og öryggisráðstafanir í kringum brunninn.
„Eina skjólið sem hann hélt að hann hefði fundið var þessi staður. Sonur minn féll ofan í brunninn. Ég vissi það þegar ég fann hlaupaskó hans á brúninni. Það var ekkert öryggi þarna, þetta er óásættanlegt óréttlæti,“ segir faðir hans í yfirlýsingu.
FC Mougins sendi frá sér yfirlýsingu þar sem Youssef var lýst sem hlýjum og yndislegum dreng sem var elskaður af öllum. Hann hafði áður verið í akademíum Stade Laurentin og Nice áður en hann gekk til liðs við Mougins. Félagið og knattspyrnuheimurinn hafa sýnt fjölskyldu hans mikla samúð.