

Arsenal neyddist til að loka fyrir athugasemdir á Instagram eftir að félagið birti myndband af nýjum leikmanni kvennaliðsins, Smilla Holmberg.
Arsenal, sem er í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar í kvennaflokki, gekk frá kaupum á hinni 19 ára gömlu sænsku landsliðskonu á mánudag. Holmberg er talin mikilvæg viðbót við hópinn, en hún hefur þegar leikið 96 leiki fyrir Hammarby, unnið tvo bikara og orðið sænskur meistari þrátt fyrir ungan aldur.

Í myndbandinu, sem tekið var upp í búningsklefa Arsenal, sendi Holmberg glaðlegt kveðjuorð til stuðningsmanna og sagðist spennt fyrir því að klæðast hinni frægu rauðu treyju. „Hæ Gooners, ég er á Emirates og get ekki beðið eftir að byrja. Áfram Arsenal,“ sagði hún.
Myndbandið vakti þó miður fallega athygli, þar sem Holmberg varð fyrir viðbjóðslegu kynbundnu áreiti frá hluta notenda. Í kjölfarið ákvað Arsenal að loka fyrir athugasemdir við færsluna til að vernda leikmanninn.
Arsenal starfar með gagnavísindafyrirtækinu Signify Group og nýtir sér Threat Matrix-þjónustuna í baráttunni gegn netáreiti. Með lokun athugasemda var þó einnig komið í veg fyrir að margir stuðningsmenn gætu boðið Holmberg formlega velkomna til félagsins.