

ÍBV er eina liðið í efstu deild karla sem er án þjálfara, þrír mánuðir eru í að Besta deildin fari af stað en Þorlákur Árnason sagði upp störfum í desember.
ÍBV hefur rætt við nokkra aðila um að taka við liðinu en ekki enn fundið arftaka Þorláks sem sagði óvænt upp störfum, var hann ósáttur við ráðningu á framkvæmdarstjóra knattspyrnudeildar.
Alex Freyr Hilmarsson fyrirliði liðsins var ráðinn í starfið en Þorlákur sagðist ekki geta sætt sig við það.
„Mér er alveg sama hver tekur við, hann náði upp stemmingu í þetta. Þið sjáið bara hvernig þetta er, þeir svara engu,“ sagði Mikael Nikulásson í Þungavigtinni í dag og vitnaði þá í það að forráðamenn ÍBV hefðu engu svarað eftir að Þorlákur sagði óvænt upp störfum.
Mikael segir stærsta vandamálið í Eyjum vera að áhuginn fyrir fótboltaliðinu sé varla til staðar. „Það er enginn áhugi á fótbolta í Vestmannaeyjum, þeir ná ekki að halda dampi mjög lengi nema að fólkið komi með þeim. Þetta er erfitt.“
Mikael segir að Þorlákur hafi fengið upp stemmingu en óttast að erlendur þjálfari nái því ekki. „Það heyrist í einum á vellinum, það er enginn á vellinum. Það eru fleiri á vellinum í 2. deild, það er enginn áhugi. Láki náði upp Eyja-stemmingu, erlendur þjálfari mun ekki ná því.“