
Jason Wilcox, yfirmaður knattspyrnumála hjá Manchester United, átti stormasaman fund með Ruben Amorim á föstudag, aðeins þremur dögum áður en Portúgalinn var rekinn.
Samkvæmt The Sun sagði Wilcox Amorim að hann væri ekki af sama kalíberi og aðrir stjórar, sem kveikti mikla reiði hjá þeim síðarnefnda.
Heimildir blaðsins innan félagsins segja Amorim hafa tryllst þegar Wilcox gagnrýndi hann fyrir taktík og vinnubrögð, þrátt fyrir að Wilcox hefði lagt áherslu á að hann væri helsti stuðningsmaður Amorim. Wilcox ku hafa minnt á að hann væri yfirmaður Amorim og hefði fullt leyfi til að veita slíka endurgjöf.
Í kjölfarið vakti athygli að Amorim krafðist þess á blaðamannafundi sínum að vera kallaður knattspyrnustjóri, ekki aðeins þjálfari.
„Ég veit að ég heiti ekki Tuchel, Conte eða Mourinho, en ég er knattspyrnustjóri Manchester United. Ég ætla ekki að segja upp. Ég sinni mínu starfi þar til annar tekur við.“