
Enzo Maresca hefur sent frá sér tilfinningaþrungna kveðju á samfélagsmiðlum, fimm dögum eftir að hann lét af störfum sem knattspyrnustjóri Chelsea.
Leiðir Chelsea og Maresca skildu á nýársdag eftir slaka frammistöðu og vaxandi spennu milli Ítalans og stjórnar félagsins. Í aðdraganda brottfararinnar hafði Maresca verið gagnrýndur fyrir að ræða við fulltrúa Manchester City og Juventus, sem Chelsea taldi vanvirðingu gagnvart félaginu.
Samkvæmt The Athletic upplýsti hann Chelsea bæði í október og desember um að hann væri í samskiptum við aðila tengda City vegna mögulegrar stöðu þar í framtíðinni.
Á Instagram birtir Maresca yfirlýsingu þar sem hann þakkar stuðningsmönnum, leikmönnum og félaginu. „Ég yfirgef Chelsea vitandi að félagið er þar sem það á heima,“ skrifar hann.
Maresca þakkaði stuðninginn síðustu 18 mánuði og sagðist stoltur af því að tryggja liðinu Meistaradeildarsæti aftur, vinna Sambandsdeildina og heimsmeistaramót félagsliða.
„Þessir sigrar munu alltaf vera í hjarta mínu. Takk, Chelsea, frá mér og fjölskyldu minni.“
Skömmu áður hafði Chelsea tilkynnt að Liam Rosenior hefði verið ráðinn knattspyrnustjóri til fimm og hálfs árs.