
Ruben Amorim lenti í útistöðum við leikmann á æfingasvæði Manchester United aðeins nokkrum vikum áður en hann var rekinn frá félaginu, samkvæmt umfjöllun The Athletic um síðustu daga Portúgalans á Old Trafford.
Amorim var látinn fara í gærmorgun, 420 dögum eftir að hann tók við liðinu. Gengið undir hans stjórn var slakt og vaxandi spenna milli Portúgalans og yfirmanna hans á Old Trafford hjálpaði ekki til.
Í The Athletic kemur fram að Lisandro Martinez hafi látið Amorim heyra það á æfingu í desember. Atvikið átti sér stað í kringum leiki gegn Crystal Palace og West Ham, en Martinez taldi sig tilbúinn að byrja leiki á ný eftir langa fjarveru vegna meiðsla. Argentínumaðurinn taldi Amorim horfa framhjá sér og lét því vel í sér heyra.
Amorim tók þessu þó vel og tók gagnrýni Martinez til greina. Varnarmaðurinn kom inn á gegn Palace og West Ham og var í byrjunarliðinu í 1-0 sigri gegn Newcastle á annan í jólum.
Atvikið undirstrikar þó spennuþrungið andrúmsloft sem einkenndi síðustu vikur Amorim hjá United.