
Fyrrverandi varnarmaður Arsenal og Juventus, Stephan Lichtsteiner, hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri FC Basel. Svissneska stórliðið tilkynnti ráðninguna í gær eftir að Ludovic Magnin var látinn fara í kjölfar dapurs gengis.
Lichtsteiner, sem er 42 ára, kemur til Basel frá FC Wettswil-Bonstetten, en hann hefur stýrt liðinu í fjórðu deild Sviss síðustu tvö ár. Basel er nú tíu stigum frá toppsæti svissnesku úrvalsdeildarinnar.
„Ég hef mikla trú á langtímaverkefninu hjá FC Basel og er afar ánægður með að fá tækifærið núna, jafnvel þó það komi fyrr en áætlað var. Ég er sannfærður um að við getum náð miklum árangri saman,“ segir Liechtsteiner.
Lichtsteiner átti glæsilegan leikmannnaferil, lék 108 landsleiki fyrir Sviss og var fyrirliði liðsins á HM 2018. Hann vann sjö meistaratitla með Juventus áður en hann gekk til liðs við Arsenal árið 2018, þar sem hann lék 14 deildarleiki.