
Oliver Glasner, stjóri Crystal Palace, virðist hafa sætt sig við að fyrirliðinn Marc Guehi gæti vel farið í janúarglugganum.
Miðvörðurinn verður samningslaus í sumar og getur farið frítt þá. Hann var næstum farinn til Liverpool á 35 milljónir punda síðasta sumar en talið er að Glasner hafi komið í veg fyrir það á ögurstundu.
Nú er Guehi þó sterklega orðaður við Manchester City, sem er í miklum meiðslavandræðum í vörninni.
„Samningur hans rennur út í sumar og það getur komið augnablik þar sem félagið telur að fjárhagshliðin sé mikilvægari en sú íþróttalega,“ segir Glasner.
„Ef leikmaðurinn biður um að fara og kaupverðið er gott þá mun hann fara. Ég er ekki svo þrjóskur að halda að ég geti haldið í Marc ef City kemur með svakalegt tilboð og hann vill fara.“