
Manchester United er í stjóraleit þessa dagana, en talið er að félagið leiti bæði að bráðabirgðastjóra til að starfa út leiktíðina og manni sem myndi taka við í sumar til frambúðar.
Eins og flestir vita var Ruben Amorim rekinn í upphafi vikunnar eftir dapurt gengi á sínum 14 mánuðum í starfi. Samband hans við yfirmenn var þá sagt í molum undir restina.
Darren Fletcher mun stýra United gegn Burnley í kvöld en talið er að það verði hans eini leikur við stjórnvölinn. Ole Gunnar Solskjær er svo sterklega orðaður til að taka við til bráðabirgða út leiktíðina, en hann sjálfur ku vera meira en til í það.
Hvað varðar stjóraráðningu til frambúðar halda nokkrir af helstu miðlum því fram að United vilji mann með reynslu úr ensku úrvalsdeildinni.
Spilar þar inn í að síðustu tveir stjórar, Amorim og Erik ten Hag, hafa komið frá öðrum deildum, Portúgal og Hollandi, með enga reynslu úr enska boltanum og ekki tekist að aðlagast.
Þetta þrengir hring þeirra sem eru í umræðunni. Af stjórum sem starfa í ensku úrvalsdeildinni hafa Oliver Glasner og Eddie Howe til að mynda verið nefndir, þó sá síðarnefndi sé ólíklegur ef marka má nýjustu fréttir.
Einhverjir hafa þá kastað fram nafni Unai Emery, sem hefur gert frábæra hluti með Aston Villa og var áður stjóri Arsenal.