Bobby Graham, fyrrverandi framherji og heiðursfélagi hjá Motherwell, er látinn, 80 ára að aldri.
Graham, sem fæddist í Motherwell árið 1944, hóf feril sinn með Liverpool þar sem hann spilaði undir stjórn hins goðsagnakennda Bill Shankly. Hann skoraði í sínum fyrsta leik fyrir félagið í 6-1 sigri gegn KR í Evrópukeppni meistaraliða.
Graham sló strax í gegn og skoraði þrennu í sínum fyrsta deildarleik fyrir Liverpool, 5-1 sigur á Aston Villa í september 1964, aðeins tveimur mánuðum fyrir 20 ára afmælið sitt.
Hann lék yfir 100 leiki fyrir Liverpool áður en hann gekk til liðs við Coventry City, þar sem hann dvaldi í tvö ár. Eftir það lá leiðin heim til Skotlands árið 1973, þar sem hann lék fyrir bæði Motherwell og Hamilton.
Hann naut mikillar virðingar á ferlinum, sérstaklega hjá Motherwell, þar sem hann var síðar tekinn inn í frægðarhöll félagsins fyrir framlag sitt innan sem utan vallar.