Fyrrum landsliðsmaðurinn Kári Árnason telur að óvænt nafn geti verið í byrjunarliði Arnars Gunnlaugssonar landsliðsþjálfara í fyrsta leik undankeppni HM gegn Aserbaísjan annað kvöld.
Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli og er afar mikilvægt að vinna hann gegn lakasta andstæðingi riðilsins, sem einnig inniheldur Frakkland og Úkraínu.
Kári mætti í Íþróttavikuna á 433.is til að ræða komandi leiki og þar sagðist hann geta séð fyrir sér að Arnar byrju með Gísla Gottskálk Þórðarson á miðjunni.
„Ég hef kallað eftir því að fá Gísla Gotta þarna inn einfaldlega því hann er svo gríðarlega góður á boltann. Þá getum við ýtt Hákoni aðeins ofar og þá er hann ekki eini maðurinn sem getur fengið boltann úr vörninni,“ sagði Kári.
Gísli var seldur til pólska stórliðsins Lech Poznan í janúar, en hann lék undir stjórn Arnars hér heima með Víkingi.
„Mér finnst ekkert ólíklegt að Arnar byrji honum, ef hann er í standi. Ég hef fylgst ágætlega með honum úti og hann er að koma til baka eftir erfið meiðsli,“ sagði Kári.