Kári Árnason, fyrrum landsliðsmaður og nú yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi, telur að Gylfi Þór Sigurðsson hefði átt að vera í landsliðshópnum fyrir fyrstu leiki undankeppni HM.
Íslenska landsliðið mætir Aserbaísjan á morgun og Frakklandi á þriðjudag. Arnar kynnti hópinn í síðustu viku en þar var Gylfi, sem er í dag á mála hjá Víkingi, hvergi sjáanlegur. Kári hefði haft hann með.
„Mér fannst það, talandi um reynslu og allt það. Þetta er þekktur sigurvegari og í gríðarlega góðu standi. Allar hlaupatölur sína það. Þær eru brjálæðislega háar og viljinn til að vinna er mikill. Það er ekki spurning að hann átti að gera tilkall,“ sagði hann í Íþróttavikunni á 433.is.
Gylfi er markahæsti landsliðsmaður í sögu Íslands og af mörgum talinn sá besti sem hefur klæðst treyjunni. Hann, ásamt Kára og fleirum, var lykilmaður er Strákarnir okkar fóru á EM 2016 og HM 2018.
„Hann er með svo gríðarleg gæði, fyrsta snertingin er alltaf fullkomin, sendingarnar. Hann hefur ekki komist í nægilega mörg skotfæri hjá okkur og það er það sem maður saknar en það er líka oft múrað fyrir. Það er erfitt að taka skot í gegnum þrjár línur af varnarmönnum.
Hann átti að vera með þarna í mínum huga, ekki spurning,“ sagði Kári.