Framherjinn Dagur Orri Garðarson hefur skrifað undir samning við Val og gengur hann til liðs við félagið eftir tímabil.
Þessi tvítugi leikmaður kemur frá Stjörnunni, en hann er þessa stundina á láni hjá HK í Lengjudeildinni. Þar hefur hann slegið í gegn í sumar og skorað 11 mörk.
„Þetta er stórt skref fyrir mig að ganga til liðs við klúbb eins og Val. Ég fann það strax á samtölum mínum við félagið að hér er mikill metnaður og fagmennska.
Ég varð strax heillaður af því sem mér var kynnt og ég mun svo sannarlega leggja mitt af mörkum til þess að félagið verði áfram í fremstu röð,“ er haft eftir Degi í tilkynningu Vals.
Tilkynningin
Framherjinn efnilegi Dagur Orri Garðarsson og Knattspyrnufélagið Valur hafa gert með sér samning þess efnis að Dagur Orri verði leikmaður félagsins næstu fimm árin. Dagur sem er nýorðinn tvítugur kemur til liðsins frá Stjörnunni í Garðabæ en hann hefur leikið á láni hjá HK í sumar þar sem hann hefur skorað 11 mörk í Lengjudeildinni.
„Við erum afar stolt af því að fá Dag Orra til félagsins til næstu ára. Hann er leikmaður sem hefur sýnt einstaka hæfileika, bæði sem markaskorari og leiðtogi á vellinum. Við höfum fylgst með honum lengi og hann hefur sannað það fyrst í 2. deildinni og svo í Lengjudeildinni að hann er alvöru markaskorari. Samningurinn undirstrikar þá stefnu sem við höfum tekið – að fjárfesta í framtíðinni og það er okkar trú að hjá okkur muni Dagur Orri taka mikilvæg skref á sínum ferli,“ segir Björn Steinar Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Vals.
Björn segir það ákveðna viðurkenningu að Dagur Orri hafi valið að koma í Val en óhætt er að segja að hann hafi verið eftirsóttur af mörgum af stærstu liðum landsins. „Við höfum stigið stór skref í sumar í þeirri vegferð okkar að styrkja umhverfið og styðja betur við ungt og efnilegt knattspyrnufólk. Við viljum að það sé samkeppni í Val og nú er það undir Degi komið að sanna sig á stóra sviðinu,“ segir Björn Steinar.
Sjálfur var Dagur Orri hæstánægður með samninginn þegar búið var að undirrita að Hlíðarenda í gærkvöldi. „Þetta er stórt skref fyrir mig að ganga til liðs við klúbb eins og Val. Ég fann það strax á samtölum mínum við félagið að hér er mikill metnaður og fagmennska. Ég varð strax heillaður af því sem mér var kynnt og ég mun svo sannarlega leggja mitt af mörkum til þess að félagið verði áfram í fremstu röð,“ sagði Dagur Orri.
Dagur Orri er á mikilvægum tímapunkti á tímabilinu með HK sem er í harðri baráttu um að komast upp í Bestu deildina. Dagur mun að sjálfsögðu klára það mikilvæga verkefni en samningur hans við Val gildir frá 1. janúar 2026.
Með þessum fimm ára samningi sendir Valur skýr skilaboð um langtímastefnu félagsins: að byggja upp sterkan kjarna, efla unga leikmenn og skapa umhverfi sem laðar að sér þá efnilegustu.