Allir leikmenn íslenska karlalandsliðsins eru heilir fyrir fyrsta leik undankeppni HM gegn Aserbaísjan á morgun. Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari leyfir sér að vera bjartsýnn.
„Mér hefur aldrei liðið eins vel með hóp og akkúrat núna. Í mars og júní var langt tímabil að baki. Nú er leikjaálagið ekki farið að segja til sín,“ sagði Arnar á blaðamannafundi í dag, en liðið er í þriðja landsleikjaglugganum undir hans stjórn.
„Það eru allir ferskir, æfingarnar búnar að vera stórkostlegar, völlurinn auðvitað geggjaður. Svo ég er með virkilega góða tilfinningu fyrir þessum leik.
Strákarnir eru spenntir en ekki of spenntir. Spennustigið er rétt stillt. Það eru allir staðráðnir í að gera sitt besta á morgun og sýna hvað við erum búnir að vera læra undanfarna fjóra leiki.“