Rætt var um það á Sýn í kvöld að Davíð Smári Lamude væri hættur með Vestra nú þegar þrír leikir eru eftir í Bestu deildinni.
Davíð gerði Vestra að bikarmeisturum fyrr í sumar en hallað hefur undan fæti í deildinni. Nú er Davíð hættur en liðið tapaði 0-5 á heimavelli gegn ÍBV í Bestu deildinni í gær.
Liðið er að berjast fyrir sæti sínu í deildinni en samningur Davíðs átti að renna út eftir tímabilið.
„Samkvæmt mínum upplýsingum hefur Davíð viljað bíða með nýjan samning og sjá hvað er í boði,“ sagði Guðmundur Benediktsson um þá staðreynd að Davíð væri hættur.
Ljóst er að Vestri þarf að finna þjálfara fljótt og örugglega. „Það verður ótrúlega áhugavert að sjá í hvaða átt þeir ætla að fara til að hanga í deildinni,“ sagði Atli Viðar Björnsson á Sýn.
Gummi Ben nefndi svo tvo fyrrum þjálfara Vestra sem eru án starfs. „Eitt nafn sem mér dettur í hug er Jón Þór Hauksson sem hefur farið Vestur. Síðan er annað nafn sem er nefnt, Gunnar Heiðar. Tveir kappar sem þekkja það að búa fyrir Vestan, það eru ekki allir sem ráða við það.“