Fyrrum leikmaður Manchester United og enska landsliðsins, Gary Neville, hefur verið gripinn á myndbandi þar sem hann virðist nota farsímann sinn undir stýri á meðan hann ók um götur Salford í Bretlandi.
Vitni sáu Neville halda á síma sínum á meðan hann beið við rauð ljós á Irwell Street í Salford. Myndbandið, sem er um 20 sekúndur að lengd, sýnir Neville í símanum á Bentley Bentayga– lúxusjeppa sem getur náð allt að 290 km hraða og kostar um 27 milljónir íslenskra króna.
Í myndbandinu má sjá Neville með aðra höndina á stýrinu og hina á símanum á meðan hann keyrir af stað eftir að ljósin skipta um lit.
Neville, sem nú starfar sem sparkspekingur hjá Sky Sports, lék yfir 400 leiki fyrir Manchester United á ferli sínum. Hann hefur ekki tjáð sig um málið opinberlega.
Samkvæmt breskum lögum er stranglega bannað að nota farsíma við akstur, jafnvel þegar bifreiðin er stöðvuð við umferðarljós.