Víðir Sigurðsson, blaðamaður Morgunblaðsins, tekur til máls í skoðunardálki blaðsins í dag og ræðir um það hvernig rætt er um Bestu deild karla og kvenna.
Víðir telur það af og frá að tala um lokaumferð í Bestu deild karla þegar 22. umferðin er leikin. Sú umferð kláraðist einmitt í gær.
Rætt hefur verið um að formlegri deildarkeppni ljúki þá, en deildinni er nú skipt í tvo hluta.
„Sá misskilningur er útbreiddur að nú sé í þann veginn að hefjast úrslitakeppni í íslenska fótboltanum. Einhverjir hafa talað um 22. umferðina í Bestu deild karla og 18. umferðina í Bestu deild kvenna sem „lokaumferðir“,“ skrifar Víðir í Morgunblað dagsins.
Víðir segist hafa heyrt það á Sýn um helgina og skrifar. „Ég heyrði meira að segja lýsanda fullyrða á sunnudaginn að Víkingar hefðu tryggt sér deildarmeistaratitil karla með stórsigrinum á KR,“ skrifar Víðir.
Víðir segir að deildarkeppnin hafi verið framlengt um fimm umferðir en af og frá sé að ræða um úrslitakeppni. „Úrslitakeppni er allt annar hlutur, eins og við þekkjum úr handboltanum og körfuboltanum.“
„Þar hefst sjálfstæð útsláttarkeppni um Íslandsmeistaratitla eftir að hefðbundinni deildakeppni er lokið. Eigum við ekki að kalla hlutina sínum réttu nöfnum?,“ segir Víðir að endingu.