Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi, tók upp símann í sumar og ræddi við Valdimar Þór Ingimundarson sóknarmann félagsins. Eftir það hætti hann að fara fram á það að fara frá félaginu.
Ragnar Bragi Sveinsson fyrrum samherji Valdimars sagði frá þessu í hlaðvarpinu Dr. Football í sumar.
Valur lagði fram tilboð í Valdimar sem hafði mikinn áhuga á því að fara frá Víkingi til Vals þar sem hans besti vinur, Jónatan Ingi Jónsson er.
„Það eru margar ástæður, hann var ekki að spila vel. Svo var hann pirraður að spila ekki allar mínútur,“ sagði Ragnar Bragi í Dr. Football um ástæðu þess að Valdimar vildi fara.
Eftir að fréttir fóru í loftið segir Ragnar að símtal hafi komið til Valdimars. „Þeir eru bestu vinir hann og Jónatan, þetta var leyst með einu símtali frá Kára Árnasyni og ekki orð um það meir.“
Ragnar væri til í að eiga það símtal á upptöku enda Kári ekki þekktur fyrir að tala í kringum hlutina. „Símtalið sem Valdi fékk frá Kára, það væri gaman að eiga það á teipi,“ sagði Ragnar.
Valdimar hefur fundið taktinn sinn á síðustu vikum með Víkingi og er frammistaða hans eins af ástæðum þess að liðið er nú komið á topp deildarinnar.