Magnús Orri Schram, formaður knattspyrnudeildar KR segir það ekki það versta í heimi falli liðið úr Bestu deild karla. Þetta kemur fram í viðtali við Fótbolta.net.
KR fékk 7-0 skell gegn Víkingi á heimavelli í gær og margir stuðningsmenn KR svartsýnir upp á framhaldið. Fimm leikir eru eftir, deildinni verður skipt upp í efri og neðri hluta eftir leiki kvöldsins.
KR er í þriðja neðsta sæti deildarinnar en fara niður í fallsæti vinni Afturelding sigur á ÍA í kvöld.
„Það er ekki það versta í heimi. Að sjálfsögðu förum við þannig inn í framhaldið að við ætlum okkur ekki að falla,“ segir Magnús Orri í viðtali við Fótbolta.net og segir að Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari liðsins sé öruggur í starfi.
„Við munum gera okkar allra besta til þess að svo gerist ekki. KR varð Íslandsmeistari 2000 og 2002 en gat fallið 2001, björguðum okkur í síðasta leik. Við höfum prófað ýmislegt, fyrstu 30 árin af minni ævi upplifði ég fall; við unnum ekki neitt í 30 ár. Alls konar lið hafa fallið og komið sterk til baka.“
Hann segir KR á réttri leið. „Við erum að upplifa það núna að þetta sé sárt, en til langs tíma litið erum við á réttri leið.“