Guðjón Pétur Lýðsson er að leggja skóna á hilluna eftir meira en 500 leiki á Íslandi, tvo Íslandsmeistaratitla, bikarmeistaratitil og fleira til. Guðjón fór yfir sviðið með Helga Fannari Sigurðssyni í Íþróttavikunni hér á 433.is.
Guðjón gekk í raðir Vals fyrir tímabilið 2016, þá í annað skiptið á ferlinum. Hafði hann átt þrjú góð ár hjá Breiðabliki en var afar spenntur fyrir því að starfa með þjálfurunum Ólafi Jóhannessyni og Sigurbirni Hreiðarssyni.
„Mér leist ógeðslega vel á Óla og Bjössa. Bjössi var einn af leiðtogunum í liðinu sem ég var í hjá Val áður. Og ég vissi að þetta væri góð ákvörðun,“ sagði Guðjón.
„Óli er sölumaður dauðans, góður í kjaftinum og spilar fótbolta sem ég kann mjög að meta. Ég eiginlega hoppaði á þetta um leið og það var í boði. Mér fannst þeir vera að byggja eitthvað sérstakt og það var ótrúlega flottur kjarni, það var verið að smíða vel spilandi lið.“
Guðjón hafði rétt fyrir sér en Valur varð bikarmeistari 2016 og svo Íslandsmeistari tvö ár í röð þar á eftir.
Viðtalið í heild er í spilaranum og á helstu hlaðvarpsveitum.