Guðjón Pétur Lýðsson er að leggja skóna á hilluna eftir meira en 500 leiki á Íslandi, tvo Íslandsmeistaratitla, bikarmeistaratitil og fleira til. Guðjón fór yfir sviðið með Helga Fannari Sigurðssyni í Íþróttavikunni hér á 433.is.
Guðjón er alinn upp hjá Haukum og var lykilmaður í liðinu sem fór upp í efstu deild í fyrsta sinn 2009 og lék þar 2010. Arnar Gunnlaugsson, nú landsliðsþjálfari Íslands, var fenginn til Hauka fyrir tímabilið í efstu deild.
„Hann var stórkostlegur fyrir okkur. Þó hann hafi verið kominn af sínum besta tíma í fótbolta gaf hann mjög mikið af sér. Og ekki bara í orði heldur á borði líka. Hann mætti snemma, hugsaði vel um sig, var í standi. Hann var alvöru atvinnumaður,“ sagði Guðjón.
Hann segist alveg hafa getað séð það fyrir að Arnar myndi ná langt í þjálfun. „Hann er djúpur í þessu og lifir fyrir fótboltann. Svo snýst þetta bara um hversu mikinn fókus þú setur í þetta.“
Viðtalið í heild er í spilaranum og á helstu hlaðvarpsveitum.