Eddie Howe, knattspyrnustjóri Newcastle, hefur nú í fyrsta sinn tjáð sig um brottför Alexander Isak til Liverpool og viðurkennir að sambandið þeirra hafi breyst eftir að leikmaðurinn neitaði að mæta til æfinga.
Isak, sem gekk í raðir Liverpool á lokadegi gluggans fyrir metfé, 125 milljónir punda, fór í verkfall í von um að knýja fram skiptin. Eftir að hann gaf út harðorða yfirlýsingu 19. ágúst, þar sem hann sakaði félagið um að hafa svikið loforð og brotið traust sitt, hættu hann og Howe að tala saman.
Howe hefur ætíð neitað því að hafa lofað Isak að hann mætti yfirgefa félagið, en viðurkennir að samband þeirra hafi aldrei orðið það sama aftur.
„Við áttum alltaf mjög gott samband,“ sagði Howe.
„Mér þótti mjög vænt um að vinna með honum og vona að hann hafi líka notið þess. Það var gagnkvæmt. Við hjálpuðum honum að verða sá leikmaður sem hann er að hluta til í dag og hann hjálpaði okkur að ná ótrúlegum árangri sem lið. Hann var hluti af mjög sigursælu liði.“
„En til að fara aðeins nánar út í þetta frá því augnabliki sem hann fór í verkfall breyttist samband okkar. Það var líklega vendipunktur. Samskiptin urðu erfið eftir það. Ég vil ekki fara mikið nánar út í það.“
Á sama tíma hefur annar framherji Newcastle, Yoane Wissa, sem var fenginn til að fylla skarð Isak meiðst með landsliðinu og verður ekki með vegna þess.