Marco Silva, stjóri Fulham, var bálreiður eftir leik sinna manna gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Fulham tapaði 2-0 í grannaslag gegn Chelsea en VAR tók allavega tvær nokkuð umdeildar ákvarðanir í viðureigninni.
Mark var dæmt af Fulham í fyrri hálfleik fyrir mögulega litlar sakir og þá fékk Chelsea umdeilda vítaspyrnu í seinni hálfleik.
Silva er á því máli að VAR hafi skipt sköpum í tapi sinna manna og að dómarnir hafi alls ekki verið réttir að þessu sinni.
,,Það voru ákvarðanir VAR sem breyttu þessum leik. Heilt yfir þá vorum við frábærir í fyrri hálfleiknum og spiluðum leikinn eins og á að spila hann,“ sagði Silva.
,,Við ættum að vera stoltir, við vorum klárlega betra liðið í fyrri hálfleiknum.“
,,Ég reyni að koma þessu fram eins vel og ég get, ég er með hluti sem ég vil segja og allir eru í sjokki í búningsklefanum og þeir sem eru að horfa heima.“
,,Vítaspyrnan var ótrúlegur dómur, þeir sem eru í VAR herberginu sáu ótrúlegustu hluti eins og brotið í fyrsta markinu.“